Byrjunarlið Kára gegn Reyni í leiknum á miðvikudagskvöldið. Ljósm. sgh

Kári gerði jafntefli við Reyni Sandgerði

Kári og Reynir Sandgerði mættust í 14. umferð í annarri deild karla í knattspyrnu í Akraneshöll síðastliðið miðvikudagskvöld. Leikurinn byrjaði fjörlega með marki frá Kára á tíundu mínútu leiks en það gerði Breki Þór Hermannsson með frábærri spyrnu beint úr hornspyrnu. Reynismenn jöfnuðu nokkrum mínútum seinna þegar Magnús Magnússon fylgdi eftir skoti sem Gunnar Bragi Jónasson, markvörður Kára, hafði varið vel. Fjórum mínútum síðar komust Reynismenn svo yfir 1-2 með frábæru skoti Ása Þórhallssonar utan teigs. Káramenn gáfu vel í og á lokamínútu fyrri hálfleiks jöfnuðu þeir metin í 2-2 þegar Árni Salvar Heimisson skoraði af harðfylgi eftir fyrirgjöf Breka Þórs.

Káramenn komu sterkir inn í seinni hálfleikinn og spiluðu á köflum virkilega flottan fótbolta. Það skilaði sér á 73. mínútu þegar Ísak Örn Elvarsson skoraði með skalla eftir góða fyrirgjöf Andra Júlíussonar. Undir lok leiks reyndu Reynismenn að jafna leikinn og eins og í fyrri leik liðanna þá var það gamla kempan Hörður Sveinsson sem skoraði loka markið á lokamínútu leiksins með skalla og niðurstaðan svekkjandi 3-3 jafntefli í annars hörkuleik.

Káramenn fengu liðsstyrk á síðasta degi félagaskiptaglugga í gær þegar Benjamín Mehic kom til liðsins að láni frá ÍA út tímabilið til að fylla skarð Martin Montipo sem gekk til liðs við Vestra á dögunum.

Kári er nú í næst neðsta sæti deildarinnar með aðeins sjö stig þegar átta leikir eru eftir af mótinu og sjö stigum frá öruggu sæti og þar af leiðandi í virkilega erfiðri stöðu. Næsti leikur Kára er gegn liði Njarðvíkur föstudaginn 6. ágúst eftir rúma viku á Rafholtsvellinum í Njarðvík. Leikurinn hefst klukkan 19.15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir