Grátlegt jafntefli hjá ÍA gegn KR

Skagastúlkur tóku á móti toppliði KR í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu á Akranesvelli í gærkvöldi. Frábærar aðstæður voru á Akranesi í gær, logn og milt veður og völlurinn í toppstandi. Það var ljóst strax í byrjun  að Skagastúlkur voru mættar til að berjast fyrir stigunum og mættu grimmar til leiks. Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Skagastúlkur voru hættulegri. Í tvígang komust þær einar í gegn á móti markmanni KR, Ingibjörgu Valgeirsdóttur, en hún varði vel í bæði skiptin og var líklega besti maður vallarins í gærkvöldi.

Í seinni hálfleik hélt baráttan áfram og mark lá í loftinu. Það kom þegar rúmlega 20 mínútur lifðu af leiknum, McKenna Davidson, leikmaður ÍA, var með boltann hægra megin fyrir utan teig og lét vaða á markið og Ingibjörg í marki KR náði ekki að halda föstu skoti Davidson. Eftir þetta skiptust liðin á um að sækja og allt leit út fyrir að Skagastúlkur myndu hirða stigin þrjú verðskuldað. En á síðustu mínútu leiksins fékk leikmaður KR, Kristín Sverrisdóttir, boltann óvænt fyrir utan teig og skaut þrumuskoti  yfir markmann ÍA og í netið við mikinn fögnuð gestanna. Grátlegt jafntefli staðreynd og miðað við gang leiksins alls ekki sanngjarnt.

Það verður að hrósa Skagastúlkum fyrir þennan leik; Þær börðust eins og ljón allan tímann og báru enga virðingu fyrir toppliðinu. Vörnin var þétt fyrir, þær áttu alla skallabolta og KR liðið skapaði sér lítið af færum í leiknum. Á miðjunni var Dana Joy Scheriff mjög öflug og dugleg og það má hrósa ÍA fyrir það að allan leikinn spiluðu þær flottan fótbolta, voru óhræddar við að spila boltanum og pressuðu leikmenn KR þegar þær voru með boltann. Þær sýndu það í þessum leik að þær eru allt of góðar til þess að falla niður um deild en mega hins vegar ekki slaka neitt á klónni því fram undan eru hörku leikir í botnbaráttunni.

ÍA er nú í áttunda sæti deildarinnar með ellefu stig eftir tólf leiki en fyrir neðan þær eru Kópavogsliðin HK með níu stig og Augnablik með átta stig, bæði eftir ellefu leiki. Næsti leikur liðsins  er hörku botnbaráttuslagur gegn liði HK fimmtudaginn 5. ágúst á Akranesvelli og hefst klukkan 19.15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir