Skagamenn fagna glæstum sigri á Rey Cup árið 2021. Ljósm. Rey Cup.

Þriðji flokkur ÍA karla Rey Cup Meistarar 2021

Leikmenn úr 3. flokki ÍA í knattspyrnu kepptu um helgina á alþjóðlega knattspyrnumótinu Rey Cup sem fram fór í Laugardalnum en mótið var haldið í 20. skipti og er eitt fjölmennasta knattspyrnumót sem haldið er á Íslandi árlega. Skagamenn sendu þrjú lið til keppni í ár, eitt í flokki A-liða og tvö lið í flokki BC-liða. Aðalþjálfari 3. flokks er Aron Ýmir Pétursson og honum til aðstoðar á mótinu var reynsluboltinn Sigurður Jónsson.

Leikmenn ÍA gerðu sér lítið fyrir og stóðu uppi sem Rey Cup meistarar í 3. flokki A-liða en úrslitin réðust á Laugardagsvellinum á sunnudaginn. Liðið vann sinn riðil á mótinu örugglega með því að leggja Hauka, Fram og Keflavík að velli en keppt var í tveimur riðlum.  A-lið ÍA keppti svo í undanúrslitum gegn liði KA frá Akureyri og lauk leiknum með markalausu jafntefli en Skagamenn unnu síðan sigur í vítaspyrnukeppni 7-6. Í úrslitaleiknum léku Skagamenn gegn liði Breiðabliks og aftur varð markalaust jafntefli og síðan unnu Skagamenn vítaspyrnukeppnina 3-2 og því hægt að segja að Skagamenn hafi haft stáltaugar þegar á hólminn var komið og fagnað frábærum sigri.

Líkar þetta

Fleiri fréttir