Kristinn Magnús Pétursson að skora mark Reynis í leiknum gegn Birninum í gær. Ljósm. þa

Reynir gerði jafntefli við Björninn

Reynir Hellissandi tók á móti liði Bjarnarins í C-riðli 4. Deildar karla í knattspyrnu í gærkvöldi og fór leikurinn fram á iðjagrænum gervigrasvellinum í Ólafsvík. Gestirnir komust yfir á 13. mínútu með marki frá Álftnesingnum með langa nafnið, Ronnarong Wongmahadthai en heimamenn svöruðu því með marki frá Kristni Magnúsi Péturssyni úr vítaspyrnu eftir tæplega hálftíma leik.. Fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleik og reyndar heldur ekki í þeim seinni og lokastaðan því jafntefli, 1-1. Svo virðist sem að leikmenn hafi ákveðið að safna spjöldum frekar en mörkum í leiknum því alls fóru níu gul spjöld á loft og unnu Reynismenn þann leik örugglega 6-3.

Reynir er nú í sjötta sæti í C-riðli með níu stig eftir tólf leiki en næsti leikur liðsins er gegn liði Harðar næsta fimmtudag á Olísvellinum á Ísafirði og hefst klukkan 19.

Líkar þetta

Fleiri fréttir