Skallagrímur vann Stokkseyri, en eru hér í leik gegn liði SR á dögunum. Ljósm. glh

Skallagrímur sigraði Stokkseyri

Skallagrímur lék gegn liði Stokkseyrar í B-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu í gærkvöldi og fór leikurinn fram á Skallagrímsvelli í Borgarnesi. Skallarnir komust yfir á 13. mínútu leiksins með marki frá Ísak Jakobi Hafþórssyni og tíu mínútum síðar kom Viktor Már Jónasson þeim í tveggja marka forystu og staðan því 2-0 í hálfleik fyrir heimamenn.

Stokkseyri minnkaði muninn á 73. mínútu leiksins með marki frá Örvari Hugasyni en Skallarnir héldu þetta út og fjórði sigurleikur þeirra í sumar staðreynd. Mikil harka var í leiknum því alls fóru á loft tíu gul spjöld, heimamenn áttu sex þeirra en gestirnir fjögur og auk þess fékk Ísak Breki Jónsson, leikmaður Stokkseyrar, rautt spjald tíu mínútum fyrir leikslok.

Skallagrímur er nú í fjórða sæti í riðlinum, með 14 stig eftir tíu leiki og á eftir að spila fjóra leiki í deildinni í sumar. Næsti leikur Skallagríms er gegn Smára næsta miðvikudag á Skallagrímsvelli og hefst klukkan 20.

Líkar þetta

Fleiri fréttir