Erla Karitas Jóhannesdóttir kom inn á í seinni hálfleik hjá ÍA í gær en náði ekki að skora. Ljósm. sas

Skagastúlkur töpuðu gegn Augnabliki

ÍA lék gegn liði Augnabliks í elleftu umferð Lengjudeildar kvenna í knattspyrnu í gærkvöldi og fór leikurinn fram á Kópavogsvelli. Augnablik var án sigurs frá því í fyrstu umferð í byrjun maí þegar þær lögðu núverandi topplið deildarinnar KR að velli 2-1 og er það eina tap KR í sumar í deildinni. Augnabliksstúlkur mættu grimmar til leiks í gær og skoruðu strax á 13. mínútu með marki frá Vigdísi Lilju Kristjánsdóttur en Skagastúlkur jöfnuðu eftir hálftíma leik og var þar að verki Dagný Halldórsdóttir með sitt fyrsta mark í deildinni í sumar. Augnabliksstúlkur létu þetta ekki slá sig út af laginu og fimm mínútum síðar skoraði Brynja Sævarsdóttir og staðan 2-1 í hálfleik fyrir Augnablik.

Eftir um 20 mínútna leik í seinni hálfleik bætti Vigdís Lilja við sínu öðru marki fyrir Augnablik og skömmu síðar skoraði Margrét Lea Gísladóttir fjórða mark heimastúlkna og sigurinn í höfn. Dana Joy Scheriff minnkaði muninn fyrir ÍA með sárabótarmarki sex mínútum fyrir leikslok og lokastaðan því 4-2 fyrir Augnablik. Skagastúlkur hafa aðeins fengið eitt stig úr síðustu fimm leikjum, síðasti sigurleikur liðsins var um miðjan júní gegn Grindavík og eru þær að nálgast ískyggilega botnbaráttuna.

ÍA er nú í sjöunda sæti deildarinnar með tíu stig eftir ellefu leiki, HK er einu sæti fyrir neðan þær með níu stig eftir tíu leiki og á botninum sitja Augnablik og Grindavík með átta stig en Augnablik á leik til góða. Næsti leikur ÍA í Lengjudeildinni er gegn toppliði KR á Akranesvelli næsta þriðjudag og hefst klukkan 19.15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Banaslys við Akranes

Laust fyrir klukkan 21 í gær voru viðbragðsaðilar; lögregla auk björgunarsveita á Akranesi, Borgarnesi og Borgarfirði kallaðar út með hæsta... Lesa meira