Kvennalið ÍA fékk skell á heimavelli

Meistaraflokkur kvennaflokks ÍA í knattspyrnu fékk Víking R. í heimsókn á Akranesvöll í gærkvöldi þegar liðin áttust við í sjöundu umferð Lengjudeildar kvenna. Gestirnir úr Reykjavík reyndust sterkari aðilinn og unnu Skagakonur nokkuð sannfærandi, 5-1.

Fyrri hálfleikur var frekar tíðindalítill. Eina markið kom á 11. mínútu frá Víkingi R. þegar Kristín Erna Sigurlásdóttir skilaði boltanum í mark Akranesstúlkna.

Annað var upp á teningnum í síðari hálfleik. Aníta Sól Ágústsdóttir varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark strax á 46. mínútu og kom gestunum í stöðuna 2-0. Þetta reyndist vera vítamínsprauta fyrir Víking því tvö mörk fylgdu fljótlega í kjölfarið. Nadía Atladóttir skoraði á 50. mínútu og svo bætti Kristín Erna sínu öðru marki við á 57. mínútu. Staðan var því orðin 4-0 fyrir Víking þegar rúmur hálftími var eftir af leik. ÍA bætti stöðu sína á 69. mínútu þegar Erla Karitas Jóhannesdóttir skoraði fyrir þær gulklæddu. Ekki komust þær þó nær gestunum sem bættu við fimmta markinu í uppbótartíma til að gulltryggja sigurinn. Lokaniðurstaðan því 5-1 Víkingi R. í vil.

Með tapinu fellur ÍA niður um tvö sæti í deildinni og er nú í sjötta sæti með níu stig. Víkingur R. færir sig hins vegar upp fyrir ÍA og er nú komið í fjórða sætið með 11 stig þegar sjö umferðir eru búnar.

Næsti leikur ÍA er gegn Aftureldingu í Mosfellsbæ miðvikudaginn 30. júní. Leikurinn hefst kl. 19:15. Víkingur R. fær aftur á móti FH í heimsókn til sín á Víkingsvöll þann 2. júlí og hefst sá leikur kl. 19:15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir