Úr leik Víkings og Vestra á laugardaginn. Ljósm. af.

Víkingur Ólafsvík enn án sigurs

Víkingur Ólafsvík mætti liði Vestra frá Ísafirði í lokaleik sjöundu umferðar Lengjudeildar karla á laugardaginn í Ólafsvík. Eftir sex mínútna leik skoraði Vladimir Tufegdzic fyrir Vestramenn eftir vandræðagang í teig heimamanna og síðan bætti Nacho Gil við öðru marki á 36. mínútu og staðan 0-2 í hálfleik.

Fyrrnefndur Vladimir gerði sitt annað mark og þriðja mark Vestra á 53. mínútu þegar hann fékk boltann við markteiginn, lagði hann fyrir sig og smellti honum í fjærhornið. Víkingur var nálægt því að minnka muninn á 70. mínútu þegar Harvey Willard átti skalla á markið en varnarmaður Vestra náði að bjarga á línu. Heimamenn náðu ekki að klóra í bakkann það sem eftir lifði leiks og leita enn að fyrsta sigrinum í deildinni.

Von á liðsstyrk

Víkingur fékk á dögunum liðsstyrk þegar Cerezo Hilgen, 27 ára hollenskur miðvörður, og Simon Colina, 26 ára spænskur miðjumaður, gengu til liðs við Víking. Þeir verða löglegir í lok júní en næsti leikur Víkings í Lengjudeildinni er gegn liði Selfoss laugardaginn 26. júní. Víkingur fer hins vegar til Vestmannaeyja næsta miðvikudag og leikur gegn liði KFS á Hásteinsvelli í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins og hefst leikurinn klukkan 18.

Líkar þetta

Fleiri fréttir