Leikmaður Völsungs lætur leikmann Kára, Marinó Hilmar, heyra það í leiknum á laugardag.

Kári gerði ekki góða ferð norður

Kári á Akranesi lék gegn liði Völsungs frá Húsavík á laugardag í 2. deild karla í knattspyrnu. Völsungur komst yfir á áttundu mínútu þegar Santiago Abalo kom heimamönnum yfir og hann bætti svo við öðru marki á 22. mínútu. Sæþór Olgeirsson skoraði svo þriðja mark Völsungs tíu mínútum fyrir hálfleik og útlitið heldur dökkt hjá Kára þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleikshléinu.

Ekki skánaði það mikið í seinni hálfleik þegar Sæþór skoraði aftur fyrir Völsung á 56. mínútu og kom þeim í 4-0 og nánast gerði út um leikinn. Káramenn minnkuðu þó muninn með tveimur mörkum, fyrst skoraði Andri Júlíusson úr víti og skömmu síðar Marinó Hilmar Ásgeirsson með skoti beint úr hornspyrnu. Nokkru síðar skallaði varnarmaður Völsungs boltann burt á marklínu eftir hornspyrnu Kára en lengra komust þeir ekki og það var títtnefndur Sæþór sem skoraði þriðja mark sitt og fimmta mark Völsungs í leiknum og lokastaðan 5-2 fyrir heimamenn. Kári situr því enn á botni deildarinnar með aðeins þrjú stig eftir átta leiki og er eins og staðan er núna í baráttu við Fjarðabyggð og Magna um að halda sæti sínu í deildinni.

Næsti leikur liðsins í deildinni er gegn liði Þróttar í Vogum miðvikudaginn 30. júní en næsta fimmtudag mæta þeir stórliði KR í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í Akraneshöllinni og hefst leikurinn klukkan 19.15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir