Byrjunarlið Kára í leiknum á laugardaginn.

Eitt stig á heimavelli hjá Kára

Knattspyrnufélagið Kári lék gegn liði Fjarðabyggðar á laugardaginn í Akraneshöllinni í 2. deild karla í knattspyrnu og endaði leikurinn með markalausu jafntefli. Lítið markvert gerðist í fyrri hálfleik fyrir utan eitt gott færi Káramanna og í seinni hálfleik var svipað upp á teningnum. Kári var mun betri aðilinn í seinni hálfleik en 15 mínútum fyrir leikslok urðu stympingar milli leikmanna sem endaði með því að Marinó Máni Atlason, leikmaður Fjarðabyggðar, fékk sitt annað gula spjald og var því rekinn af velli. Ekki náðu Káramenn að nýta sér liðsmuninn það sem eftir lifði leiks þó mjóu hefði munað á lokamínútu leiksins. Garðar Gunnlaugsson fékk þá dauðafæri aleinn á móti markmanni Fjarðabyggðar en brást bogalistin. Gestirnir fengu skyndisókn í kjölfarið sem endaði með því að Páll Sindri Einarsson, fyrirliði Kára, fékk sitt annað gula spjald þegar hann stöðvaði leikmann gestanna ólöglega. Lokastaðan því markalaust jafntefli og sitja Káramenn því enn í neðsta sæti deildarinnar með aðeins tvö stig eftir sex umferðir.

Jón Þór Hauksson sá um stjórnartaumana í leiknum hjá Kára í fjarveru Ásmundar Haraldssonar sem er að sinna verkefnum með íslenska kvennalandsliðinu. Það dugði þó ekki til en Jón Þór fær annað tækifæri annað kvöld þegar Kári mætir ÍR úr Breiðholti í Akraneshöllinni kl. 20.

Líkar þetta

Fleiri fréttir