Myndasyrpa – Bláfáninn blaktir við Langasand

Bláfáninn var dreginn að húni við Langasand á Akranesi í morgun, níunda árið í röð. Bláfáninn er alþjóðlegt umhverfismerki sem veitt er smábátahöfnum, baðströndum og þjónustuaðilum í sjávarferðamennsku fyrir árangursríkt starf að umhverfismálum. Tilgangur verkefnisins er að stuðla að verndun á lífríki haf- og starndsvæða, draga úr umhverfisáhrifum, bæta öryggi og efla umhverfisvitund. Bláfáninn er þannig tákn um góða frammistöðu í umhverfismálum og bætir ímynd og ásýnd rekstraraðila þar sem hann blaktir við hún.

Bláfáninn nær til rúmlega 4.500 staða í tæplega 50 löngum. Fjórir staðir á Íslandi hljóta Bláfanann í ár; Langisandur, Bláa Lónið, Bíldudalshöfn og Patrekshöfn. Til þess að hljóta Bláfánann þurfa staðir að standast strangar kröfur í umhverfis- og öryggismálum auk þess að stuðla að fræðslu til bæði starfsmanna og almennings á sviði umhverfismála. Vottunin gildir til eins árs auk þess sem úttektaraðilar heimsækja staðina á vottunartímabilinu.

Það voru þeir Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri og Ragnar Þórðarson frá Vottunarstofunni Túni sem drógu fánann að húni með dyggri aðstoð leik- og grunnskólabarna á Akranesi. Börnin tóku jafnframt lagið og sungu við athöfnina.

Líkar þetta

Fleiri fréttir