Marinó Þór í baráttu við liðsmann Vestra í deildarleik liðanna frá því í vetur.

Tap í fyrsta leik undanúrslita gegn Vestra

Skallagrímsmenn fóru fýluferð vestur á Ísafjörð í gær þegar þeir mættu Vestra í undanúrslitum 1. deildar karla í körfuknattleik. Skallagrímur hafði áður tryggt sig áfram í undanúrslitakeppnina með sigri á Álftanesi síðastliðinn föstudag og var leikur Skallagríms og Vestra sá fyrsti í einvígi liðanna en vinna þarf þrjá leiki til að komast áfram í úrslitaviðureignina.

Þeir grænklæddu komu ákveðnir til leiks og stýrðu leiknum framan af í fyrsta fjórðungi sem endaði með eins stigs forystu gestanna úr Borgarnesi. Leikurinn hélt sama takti fram að hálfleik og var staðan 33-32 fyrir heimamönnum þegar gengið var til klefa.

Í þriðja leikhluta skellti Vestri hreinlega í lás á Skallagrímsmenn sem áttu engin svör við vörn heimamanna. Vestri náði að halda Borgnesingum í tíu stigum í leikhlutanum en heimamenn bættu við 26 stigum og komu sér í vænlega stöðu fyrir loka fjórðunginn. Skallagrímur sýndi smá lífsmark síðustu tíu mínúturnar en bilið sem Vestri bjó til í þriðja fjórðungi var gestunum um megn og náðu þeir grænklæddu aldrei að ógna af einhverri alvöru. Vestramenn sigldu því nokkuð þægilegum sigri í höfn, 81-55, og taka í leiðinni forystu í einvíginu, 1-0.

Lang stigahæstur í liði heimamanna var Ken-Jah Bosley með 34 stig og 6 stoðsendingar. Hann náði einnig að fiska 9 villur á Borgnesinga í leiknum. Næst stigahæstir voru Marko Dmitrovic og Nemanja Knezevic með 12 stig hvor en sá fyrrnefndi reif niður 21 frákast fyrir Ísfirðinga. Í liði Skallagríms var Marques Oliver stigahæstur með 13 stig. Næst stigahæstur var Eyjólfur Ásberg Halldórsson með 12 stig, 7 fráköst og fjórar stoðsendingar.

Leikur númer tvö í einvígi liðanna fer fram í Borgarnesi föstudaginn 21. maí kl. 19:15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir