Skallagrímsmenn unnu Álftanes í 8-liða úrslitum 1. deildar karla í körfuknattleik.

Skallagrímsmenn fara áfram í undanúrslit

Skallagrímsmenn tryggðu sig áfram í undanúrslit í 1. deild karla í körfuknattleik þegar þeir unnu Álftanes í oddaleik liðanna á föstudaginn var. Staðan í einvíginu var 1-1 og þurfti sigur til að komast áfram í undanúrslit þar sem einungis þurfti að vinna tvo leiki til að tryggja sig áfram. Leikurinn fór fram á Álftanesi.

Skallagrímsmenn komu vel undirbúnir til leiks og komu sér fljótt í framsætið eftir nokkurra mínútna leik. Borgnesingar spiluðu góða vörn á heimamenn sem voru þó alltaf innan seilingar. Staðan í hálfleik var 43-35 Skallagrími í vil.

Álftnesingar komu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og komust yfir um miðbik þriðja leikhluta. Var það nóg til að kveikja í Skallagrímsmönnum sem komu sér fljótt yfir á nýjan leik og leiddu þeir grænklæddu með 8 stigum fyrir loka fjórðunginn.

Skallagrímsmenn héldu uppteknum hætti síðustu tíu mínúturnar. Sama hvað Álftnesingar reyndu til að stoppa sóknarleik Borgnesinga áttu þeir síðarnefndu alltaf svör. Skallagrímur bætti enn fremur við forskot sitt eftir því sem leið á leikinn og vann liðið sannfærandi sigur á Álftnesingum, 92-79.

Stigahæstur í liði Skallagríms var Marques Oliver með 24 stig og hvorki meira né minna en 17 fráköst. Næstur var Nebojsa Knezevic með 18 stig og 6 stoðsendingar. Í liði Álftaness var miðherjinn Cedrick Bowen stigahæstur með 24 stig og 11 fráköst. Næst stigahæstur var Orri Gunnarsson með 16 stig.

Þar með hafa Álftnesingar lokið keppni þetta tímabil og fara í sumarfrí á meðan Skallagrímsmenn fara áfram í undanúrslit og mæta Vestramönnum frá Ísafirði. Fyrsta viðureign liðanna fer fram í kvöld á Ísafirði en vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslitaviðureignina. Hamar og Selfoss keppa um hinn miðann í úrslitakeppnina.

Líkar þetta

Fleiri fréttir