Víkingur komst lítt áleiðis í leiknum á föstudag: Ljósm. af.

Ólsarar töpuðu fyrir Aftureldingu

Víkingur Ólafsvík tapaði stórt á heimavelli fyrir liði Aftureldingar á föstudagskvöldið í annarri umferð Lengjudeildar karla í knattspyrnu. Lokatölur 5-1 fyrir gestina. Gestirnir byrjuðu með látum. Kristófer Óskar skoraði tvö mörk á fyrstu átta mínútunum og síðan bætti Valgeir Árni Svansson þriðja markinu við á 13. mínútu. Víkingur minnkaði muninn á 17. mínútu með marki Hlyns Sævars Jónssonar en Kristófer fullkomnaði þrennuna eftir tæplega hálftíma leik og staðan í hálfleik, 1-4.

Hasarinn hélt áfram í síðari hálfleik. Emmanuel Eli Keke var rekinn af velli á 60. mínútu en það var víst frekar furðulegur dómur. Eli Keke og Kristófer voru að rífast inni í teig þegar Konráð Ragnarsson, markvörður Víkinga, kom og hrinti Kristófer. Dómari leiksins ákvað hins vegar að reka Eli Keke af velli og leiðrétti það ekki. Kristófer skoraði síðan fjórða mark sitt skömmu síðar og rétt fyrir leikslok var Hlynur Sævar rekinn af velli fyrir að sparka boltanum í burtu og Víkingur þá tveimur mönnum færri. Lokastaðan því 5-1 fyrir gestina sem eru með fjögur stig eftir tvær umferðir en Víkingur er enn án stiga.

Í viðtali við fotbolti.net eftir leik sagði Gunnar Einarsson, þjálfari Víkinga, að þetta væri ofboðslega svekkjandi og fúlt. „Það er lítið annað að gera en að horfa fram á við og mæta í næsta leik. Það er verðugt verkefni á móti Kórdrengjum og mér finnst gaman að etja við þá kappi og ég trúi ekki öðru en að mínir menn geti peppað sig upp í að mæta því liði.“

Næsti leikur Víkinga er einmitt á móti áðurnefndum Kórdrengjum og verður á Ólafsvíkurvelli föstudaginn næsta og hefst kl. 19.15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir