Markaregn í Akraneshöllinni

Það var sannkallað markaregn í Akraneshöllinni þegar Knattspyrnufélagið Kári tók á móti KV á föstudagskvöldið. Lauk leiknum með 4:4 jafntefli þar sem KV jafnaði leikinn á fjórðu mínútu í uppbótartíma, örfáum sekúndum fyrir leikslok. Káramenn voru mjög óheppnir að ná ekki að sigra í leiknum því í stöðunni 4:3 fengu þeir tvö upplögð færi til þess að klára leikinn sem ekki nýttust.

Marinó Hilmar Ásgeirsson átti stórleik hjá Kára og skoraði þrennu í leiknum. Hann skoraði fyrstu tvö mörk leiksins og kom Kára í 2:0. Komu mörkin á 14. og 35 mínútu leiksins. En KV náði að skora tvö skallamörk undir lok hálfleiksins á 41. og 43. mínútu og voru þeir Kristján Páll Jónsson og Askur Jóhannsson þar að verki en vörn Káramanna leit ekki vel út í mörkunum. Staðan 2:2 í hálfleik.

Leikmenn KV höfðu heldur undirtökin framan af síðari hálfleik en Káramenn áttu góðar skyndisóknir og úr einni slíkri fullkomnaði Marinó Hilmar þrennu sína á 70. mínútu en níu mínútum síðar fékk KV vítaspyrnu og skoraði Ingólfur Sigurðsson úr spyrnunni. Og staðan aftur jöfn. Káramenn gáfust ekki upp og bættu í sóknina og fengu vítaspyrnu á 82. mínútu þegar markvörður KV braut á Marinó Hilmari sem var kominn einn í gegn. Ómar Castaldo Einarsson markvörður KV fékk að líta gula spjaldið fyrir brot sitt en margir voru á því að annar litur hefði átt að vera á spjaldinu. Það var Martin Montipo sem skoraði úr vítaspyrnunni en hann er nýkominn til Kára að láni frá ÍA sem fékk leikmanninn til sín í síðustu viku.

Á dramatískum lokamínútum þegar Káramenn fengu upplögð marktækifæri til að klára leikinn náðu Vesturbæingarnir í KV að jafna eftir mikinn hamagang í vítateig Káramanna og var Þorsteinn Örn Bernharðsson þar að verki. Lokatölur 4:4 og Kári er því með eitt stig eftir fyrstu tvær umferðirnar í 2. deildinni. Næsti leikur Káramanna verður á útivelli gegn Reyni Sandgerði næstkomandi föstudag og hefst klukkan 19.15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir