Árni Snær Ólafsson markmaður ÍA er úr leik í sumar eftir að hann sleit hásin. Sindri Snær Magnússon verður sömuleiðis frá vegna meiðsla fram eftir sumri. Ljósm. úr safni.

Meiðsli Skagamanna og rautt spjald í tapleik gegn FH

Skagamenn léku gegn FH í Pepsi Max deildinni í fótbolta í gærkvöldi og byrjuðu leikinn vel því Gísli Laxdal Unnarsson skoraði með góðu skoti eftir sendingu Elias Tamburini strax á 6. mínútu. Skagamenn misstu svo mann út af á 28. mínútu eftir að Hákon Ingi Jónsson fékk tvö gul spjöld á fimm mínútna millibili með ansi klaufalegum hætti. Skagamenn því einum færri og FH-ingar voru fljótir til og nýttu sér liðsmuninn tveimur mínútum síðar þegar Óttar Bjarni Guðmundsson, leikmaður ÍA, skoraði sjálfsmark eftir skot Péturs Viðarssonar.

Staðan var því 1-1 í hálfleik og skipti þjálfari ÍA, Jóhannes Karl Guðjónsson, tveimur leikmönnum inn á í hálfleik og annar þeirra, Sindri Snær Magnússon, lenti í slæmu samstuði við leikmann FH á upphafsmínútum seinni hálfleiks. Leikurinn var stöðvaður í um 15 mínútur á meðan hugað var að Sindra og beðið eftir sjúkrabíl en sjúkraþjálfari ÍA taldi ekki ráðlagt að hreyfa við honum þar sem um slæm bakmeiðsli væri um að ræða og komið hefur nú í ljós að Sindri er með tvö brotin rifbein. Leikurinn hélt síðan áfram og það var ekki fyrr en á 82. mínútu sem FH komst yfir með marki fyrirliðans Matthíasar Vilhjálmssonar. Í kjölfarið brustu allar flóðgáttir og FH bætti við þremur mörkum á síðustu mínútunum. Fyrst skoraði Ágúst Eðvald Hlynsson fyrir FH en í millitíðinni meiddist markvörður ÍA, Árni Snær Ólafsson, með slitna hásin, og því þurfti Þórður Þorsteinn Þórðarson að skella sér í markið þar sem Skagamenn höfðu sett alla fimm varamenn sína inn á. Steven Lennon bætti fjórða markinu við stuttu síðar og það var síðan Vuk Dimitrijevic sem innsiglaði stórsigur heimamanna og lokastaðan 5-1 fyrir FH.

Það er ljóst að þungur róður er framundan hjá Skagamönnum í Pepsi Max deildinni en þeir sitja nú í tólfta og neðsta sæti eftir þrjár umferðir með eitt stig. Skagamenn fengu sóknarmann frá FH, Morten Beck Andersen, á síðasta degi félagsskiptagluggans og á sama tíma gekk Sigurður Hrannar Þorsteinsson til liðs við Gróttu í Lengjudeild karla. Skagamenn fá ekki langa hvíld eftir erfiðan leik kvöldins því þeir mæta Stjörnunni strax á mánudagskvöldið næstkomandi á Akranesvelli og hefst leikurinn kl. 19.15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir