Eva María Jónsdóttir í leik gegn Augnabliki fyrr í sumar. Ljósm. sas

Frábær sigur hjá Skagastúlkum gegn Augnabliki

Meistaraflokkur kvenna lagði lið Augnabliks í jöfnum og spennandi leik í blíðskaparviðri á Akranesvelli á miðvikudagskvöldið. Þetta var annar leikur ÍA í Lengjudeildinni í sumar en eftir tap fyrir Gróttu í fyrstu umferðinni var ljóst að sigur væri nauðsynlegur fyrir þær til að koma sér í efri hluta deildarinnar. Þetta byrjaði þó ekki vel því Vigdís Lilja Kristjánsdóttir kom gestunum yfir á 4. mínútu með þrumuskoti sem small í þverslánni og niður og rétt inn fyrir marklínuna. Skagastúlkur sóttu meira í fyrri hálfleik en gekk illa að skapa sér góð marktækifæri og staðan í hálfleik 0-1.

Skagastúlkur héldu áfram að sækja í seinni hálfleik og uppskáru loks á 71. mínútu með flottu marki Erlu Karítas Jóhannesdóttir sem fékk boltann fyrir framan vítateiginn og skaut hörkuskoti í bláhornið. Eftir þetta sóttu liðin á bága bóga og það var ÍA sem skoraði sigurmarkið í uppbótartíma. Lilja Björg Ólafsdóttir fylgdi þá vel eftir góðri fyrirgjöf og lagði boltann í netið eftir klafs og mistök gestanna.  Frábær sigur og ÍA komið á blað í Lengjudeildinni með þrjú stig. Þá má hrósa umgjörð leiksins sem var til fyrirmyndar á Akranesvelli á miðvikudagskvöldið: Vallarþulur, klapplið og stemning í stúkunni. Næsti leikur ÍA í Lengjudeildinni verður gegn KR föstudaginn 21. maí á Meistaravöllum í Vesturbænum og hefst kl. 19.15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir