Einar Sverrir Sigurðarson og Sigurður Ingi Jóhannsson sem lagði til land undir keppnina.

140 keppendur tóku þátt í stærsta enduromóti síðari ára

Um liðna helgi hélt Enduro Fyrir Alla sína fyrstu keppni sumarsins. Fór hún fram í Syðra-Langholti í Hreppum. Metþátttaka var á mótinu en hátt í 140 keppendur voru skráðir til leiks. Keppt er í brautarakstri og var brautin í ár hátt í ellefu kílómetrar. Keppnin reynir á hæfni og þol keppenda og voru flestir keppendur nánast örmagna við endamarkið eftir 90 mínútna þolakstur. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ræsti keppendur í þetta sinn en Syðra-Langholt er einmitt heimabær hans.

Keppt er í þremur flokkum; Karla, kvenna og í liðakeppni. Sigurvegari í karlaflokki var Eyþór Reynisson á Yamaha og sigurvegari í kennaflokki var Aníta Hauksdóttir á KTM. Úrslit í liðakeppni verða svo birt í lok tímabils.

Enduro Fyrir Alla var stofnað af Einari Sverri Sigurðarsyni, Daða Þór Halldórssyni, Jónatan Þór Halldórssyni og Pétri Smárasyni til að auðvelda áhugafólki í mótorsporti að taka þátt í mótum sér til skemmtunar. „Keppendum hefur fjölgað jafnt og þétt með hverri keppni og stefnir í metþátttöku í sumar. Bílavarahlutafyrirtækið Stilling hf. og Liqui Moly þýski bætiefna- og olíuframleiðandinn hafa verið bakhjarlar mótaraðarinnar síðan hún var stofnuð á síðasta ári. Þátttakan um helgina var frábær, við erum að sjá að mótorsportið á Íslandi er að lifna við og áhugi fólks að taka þátt í svona mótum er alltaf að aukast,“ segir Einar Sverrir Sigurðarson.

Líkar þetta

Fleiri fréttir