Skellt var í myndatöku í tilefni þess að tímabilið er nú búið. Hér eru stúlkurnar ásamt Halldóri Steingrímssyni þjálfara. Ljósm. sá.

Snæfellsstúlkur sigruðu í framlengdum leik

Snæfell endaði tímabilið á góðum sigri gegn Breiðabliki í framlengdum leik í Stykkishólmi í lokaumferð Domino’s deild kvenna í körfuknattleik á laugardaginn. Leikurinn spilaðist jafnt alveg til lokaleikhluta sem endaði í jafntefli, 70-70, og fór því leikurinn í framlengingu. Liðin héldu uppteknum hætti í framlengingunni og skiptust á körfum, hægri – vinstri. Það var ekki fyrr en rúmar 30 sekúndur lifðu af leik að heimastúlkur náðu að slíta sig almennilega frá Breiðabliki og endaði leikurinn 81-75 Hólmurum í vil.

Haiden Palmer átti sannkallaðan stjörnuleik fyrir Stykkishólmsliðið; 27 stig, 22 fráköst og 11 stoðsendingar. Næst á eftir var Emese Vida með 21 stig og 23 fráköst.

Í liði Breiðabliks var Jessica Kay Loera stigahæst með 21 stig, 20 fráköst og 9 stoðsendingar.

Snæfell endar því tímabilið í 7. sæti deildarinnar með 10 stig og öruggt sæti í Domino’s deildinni næsta vetur en KR lenti í neðsta sætinu og fellur því niður um deild. Breiðablik heldur 5. sætinu og endar með 16 stig eftir tímabilið. Hvorug liðin komast í úrslitakeppnina og eru því bæði komin í sumarfrí.

Líkar þetta

Fleiri fréttir