Boltinn er líka kominn í frí. Ljósm. glh.

Skallagrímsstúlkur komnar í sumarfrí

Skallagrímur tók á móti Fjölni í síðustu umferð Domino’s deildar kvenna í körfuknattleik á laugardaginn og þurftu heimastúlkur að sætta sig við 19 stiga tap. Fjölnir, sem hefur þegar tryggt sér sæti í úrslitakeppninni, reyndist sterkara liðið og var ávallt skrefinu á undan Skallagrími. Gestirnir úr Grafarvoginum enduðu fyrri hálfleikinn sterkt og náðu að skora 9 stig þegar rúm mínúta var eftir og leiddu með 12 stigum þegar liðin gengu til klefa. Ekki litu Fjölnisstúlkur um öxl eftir það og juku forskotið á heimastúlkur hægt og bítandi eftir því sem leið á leikinn. Kláruðu þær svo leikinn með öruggum 19 stiga sigri; 102:83.

Fjölnir endaði deildarkeppnina í fjórða sæti með 28 stig, með jafn mörg stig og Keflavík í sætinu fyrir ofan. Keflavík er með betri innbyrðisstöðu en Fjölnir og þess vegna sitja Reyknesingar í sætinu fyrir ofan. Skallagrímur átti erfitt uppdráttar eftir því sem leið á tímabilið og endaði liðið í sjötta sæti með 16 stig, með jafn mörg stig og Breiðablik í fimmta sæti, sem er með betri innbyrðisstöðu. Fjölnir mun því mæta deildarmeisturunum Vals í úrslitakeppni Domino’s deildar kvenna sem hefst föstudaginn 14. maí næstkomandi. Aftur á móti er tímabilið búið hjá Skallagrími og fara stelpurnar nú í sumarfrí.

Líkar þetta

Fleiri fréttir