Skallagrímsmenn töpuðu fyrsta leiknum í úrslitakeppninni

Skallagrímsmenn þurftu að sætta sig við tap gegn Álftanesi í fyrstu viðureign liðanna í 8-liða úrslitum 1. deildar karla í körfuknattleik. Liðin áttust við á Álftanesi síðastliðinn föstudag. Heimamenn voru sterkari aðilinn í upphafi leiks og leiddu með fimm stigum eftir fyrsta fjórðung. Álftnesingar juku forskot sitt enn frekar í öðrum leikhluta og leiddu með ellefu stigum þegar leikurinn var hálfnaður. Skallagrímsmenn komu beittir inn í þriðja leikhluta og náðu að saxa á forskot heimamanna og minnkuðu muninn í fjögur stig fyrir loka fjórðunginn. Álftnesingar voru snöggir að bregðast við áhlaupi þeirra grænklæddu og komu sér fljótt aftur í tíu stiga forskot. Heimamenn voru alltaf með yfirhöndina og báru að endingu sigur úr býtum; 92-88.

Stigahæstur í liði Álftaness var Vilhjálmur Kári Jensson með 24 stig. Næstur á eftir var Róbert Sigurðsson með 19 stig. Í liði Skallagríms var miðherjinn Marques Oliver stigahæstur með 30 stykki og 16 fráköst. Nebojsa Knezevic var næst stigahæstur með 28 stig.

Nú leiðir Álftanes einvígið 1-0 en vinna þarf tvo leiki til að komast í undanúrslit. Næsti leikur liðanna verður í Borgarnesi á morgun, þriðjudag, kl. 19:15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir