Tap hjá Kára í fyrsta leik

Knattspyrnufélagið Kári byrjaði ekki vel í fyrsta leik sínum á Íslandsmótinu í 2. deild, þegar þeir mættu KF í Akraneshöllinni í gær. Þeir máttu sætta sig við tap 2:3. En það hafði vissulega áhrif að Andra Júlíussyni var vísað af leikvelli á 69. mínútu með sitt annað gula spjald í leiknum fyrir litlar sakir í stöðunni 2:2.

Það voru gestirnir úr Fjallabyggð sem byrjuðu betur og náðu forystunni strax á 12. mínútu þegar Oumar Diouck kom þeim yfir í leiknum úr aukaspyrnu af 25 metra færi en Káramenn snéru stöðunni sér í hag fyrir leikhlé. Jón Vilhelm Ákason jafnaði leikinn á 25. mínútu með hörkuskoti fyrir utan teig og Gabríel Þór Þórðarson kom Káramönnum yfir tíu mínútum síðar eftir að hafa sloppið í gegn, sólað markmanninn og sett boltann í autt markið og leiddu því Káramenn 2:1 í hálfleik. En það var síðan Theodore Develan Wilson sem jafnaði leikinn fyrir KF á 53. mínútu og á síðustu tuttugu mínútum leiksins nýttu gestirnir liðsmuninn og tryggðu sér sigurinn fjórum mínútum fyrir leikslok með skallamarki frá Ljubomir Delic.

Næsti leikur Kára er heimaleikur gegn KV  í Akraneshöllinni  næstkomandi föstudag þann 14. maí kl 19.15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir