Þórður Þorsteinn bjargaði einu stigi í hús fyrir heimamenn á 89. mínútu leiksins.

Sanngjarnt jöfnunarmark Skagamanna í blálokin

Skagamenn tóku í gærkvöldi á móti Víkingi Reykjavík í fyrsta heimaleik sínum á tímabilinu í Pepsí Max deildinni. Miðað við gang leiksins þá var það sanngjarnt að Skagamenn náðu að jafna þegar Þórður Þorsteinn Þórðarson skoraði úr vítaspyrnu á 89. mínútu með föstu skoti í vinstra hornið. En vítaspyrnan var dæmd á Kára Árnason varnarmann Víkings þegar hann handlék knöttinn innan vítateigs eftir hornspyrnu Gísla Laxdals Unnarssonar. En það var Víkingur sem skoraði sitt mark eftir aðeins 50 sekúndna leik. Við upphafsflautið geystust þeir í sókn og uppskáru hornspyrnu. Pablo Punyed tók spyrnuna og eftir baráttu inn í vítateignum hreinsaði Árni Snær markvörður boltann af marklínunni í Borgfirðinginn Helga Guðjónsson sóknarmann Víkings og af honum fór boltinn með hælspyrnu í netið. Þrátt fyrir þetta mark í upphafi leiks héldu Skagamenn einbeitingunni og reyndu að sækja en áttu í erfiðleikum með sendingar vegna strekkingsvinds sem stóð þvert á völlinn. Náðu liðin því að skapa sér fá tækifæri í hálfleiknum.

En Skagamenn mættu gríðarlega ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og sóttu grimmt að marki Víkings og máttu gestirnir þakka markverði sínum, Þórði Ingasyni, fyrir það að Skagamenn jöfnuðu ekki fyrr í leiknum. Varði hann þrívegis mjög vel í hálfleiknum. Fyrst aukaspyrnu frá Brynjari Snæ Pálssyni, síðan skot frá Viktori Jónssyni á nærstöng eftir fyrirgjöf frá Elias Tamburini og loks hörkuskot frá Gísla Laxdal Unnarssyni og aftur var það Tamburini sem átti fína fyrirgjöf. En Víkingur ógnaði sáralítið í seinni hálfleiknum en náðu þó skyndisóknum og úr einni slíkri varði Árni Snær Ólafsson frá Erlingi Agnarssyni með góðu úthlaupi.

Eins og fyrr sagði þá var það ekkert annað en sanngjarnt að Skagamenn náðu inn jöfnunarmarki í lokin og hefði ekki komið til góð markvarsla Þórðar Ingasonar í marki Víkings hefðu þeir hæglega getað unnið leikinn.

Það er erfitt að taka út einstaka leikmenn fyrir frammistöðu þeirra því það var fyrst og fremst baráttugleði liðsheildarinnar sem skóp fyrsta stig Skagamanna í Pepsi Max deildinni þetta árið.

Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari Skagamanna sagði í viðtölum eftir leikinn að hann hefði verið ánægður með karakter sinna manna eftir að þeir fengu á sig markið á upphafssekúndum leiksins. Þeir hefðu haldið áfram og uppskáru í lokin og var þeirrar skoðunar að sigurinn hefði átt að falla þeim í skaut miðað við marktækifærin og fannst Víkingur skapa sér afskaplega lítið í leiknum.

Næsti leikur Skagamanna er gegn FH í Kaplakrika næstkomandi fimmtudag 13. maí kl. 19.15 en þá mun Ísak Snær Þorvaldsson snúa til baka eftir að hafa tekið út leikbann gegn Víkingi og eins var ánægjulegt að sjá Sindra Snæ Magnússon koma inn á í leiknum eftir að hafa verið frá síðan í janúar vegna meiðsla. Endurkoma þeirra mun styrkja liðið enn frekar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir