Úrslitakeppni fyrstu deildar í körfu hefst á morgun

Úrslitakeppni fyrstu deildar karla í körfuknattleik hefst á morgun, föstudag. Deildarkeppnin kláraðist í vikunni þar sem Breiðablik tryggði sér efsta sætið og farseðil beinustu leið í úrvalsdeildina. Kópavogsliðið getur því farið í langþráð sumarfrí. Aftur á móti fá hin liðin í deildinni að berjast um hinn farseðilinn upp í efstu deild en tvö lið fara upp. Liðin sem enduðu í 2.-9. sæti, átta lið samtals, hefja 8-liða úrslit nú á föstudag og laugardag. Þar á meðal eru Skallagrímsmenn í Borgarnesi sem enduðu deildarkeppnina í 6. sæti og munu því mæta liðinu í 5. sæti, Álftanesi í 8-liða úrslitum. Fyrsta viðureign liðanna fer fram á Álftanesi, föstudaginn 7. maí kl. 19:15. Í fyrstu umferð þurfa liðin að vinna tvo leiki til þess að komast áfram í undanúrslit en í undanúrslitum og lokaúrslitum þarf að sigra þrjá leiki. Skallagrímur var síðast í Domino’s deildinni árið 2019.

Líkar þetta

Fleiri fréttir