Skallagrímskonur töpuðu í Kópavoginum

Lánlausar Skallagrímsstúlkur þurftu að sætta sig við þriðja tapleikinn í röð þegar þær heimsóttu Breiðablik í Smáranum í Kópavogi í næstsíðustu umferð Domino’s deildar kvenna í körfuknattleik í gærkvöldi.

Jafnt var með liðunum stóran hluta leiksins en það var ekki fyrr en í loka leikhluta að leiðir tóku að skilja. Heimastúlkur voru hreinlega hungraðari fyrir sigrinum og hægt og bítandi náðu þær að slíta sig frá liði Skallagríms sem virtist vera orðið bensínlaust undir lokin. Breiðablik sigldi því sigrinum nokkuð örugglega í höfn og niðurstaðan 82-72.

Atkvæðamest í liði Breiðabliks var leikstjórnandinn Jessica Kay Loera með 28 stig, 6 fráköst og 7 stoðsendingar. Þar á eftir kom Iva Georgieva með 19 stig en frákastahæst var Ísabella Ósk Sigurðardóttir sem reif niður hvorki meira né minna en 15 stykki.

Í liði Skallagríms skilaði Keira Robinson inn 20 stigum, 11 fráköstum og 6 stoðsendingum. Embla Kristínardóttir var einnig drjúg fyrir Borgnesinga með 18 stig og 9 fráköst og loks Sanja Orozovic með 16 stig.

Með tapinu höfðu liðin sætaskipti í deildinni. Skallagrímur fer niður um eitt og eru nú í 6. sæti á meðan Blikar taka 5. sætið þegar ein umferð er eftir af deildarkeppninni. Síðasta umferð Domino’s deildar kvenna fer fram um næstu helgi. Þá fær Skallagrímur Fjölni í heimsókn í Borgarnes á laugardag og hefst sá leikur kl. 16:00. Breiðablik fer vestur í Stykkishólm og keppir gegn Snæfelli sama dag og hefst sá leikur einnig kl. 16:00.

Líkar þetta

Fleiri fréttir