Deildarmeistarar. Lið Vals að leik loknum með bikarinn.

Valur deildarmeistari í Domino’s deild kvenna

Valsstúlkur tryggðu sér deildarmeistaratitilinn í gær þegar þær unnu sannfærandi sigur á Snæfelli þegar liðin áttust við í 20. umferð Domino’s deild kvenna í körfuknattleik. Leikurinn fór fram á Hlíðarenda í gærkvöldi. Heimakonur tóku fljótt yfirhöndina í leiknum og komu sér snemma í vænlega stöðu. Liðið leiddi með níu stigum eftir fyrsta fjórðung og áttu eingöngu eftir að auka forskot sitt þegar líða tók á leikinn og enduðu með 21 stigs forystu í hálfleik. Snæfell átti engin svör gegn sterku liði Vals og endaði leikurinn með öruggum 24 stiga sigri Vals.

Guðbjörg Sverrisdóttir var stigahæst í liði heimastúlkna með 16 stig. Þar næst var Hildur Björg Kjartansdóttir með 14 stig. Hjá Snæfelli var Tinna Guðrún Alexandersdóttir stigahæst með 22 stig. Haiden Denise Palmer var einnig seig og skilaði inn 12 stigum, 12 fráköstum og 5 stoðsendingum.

Síðasti leikur Snæfells verður gegn Breiðabliki í Stykkishólmi næstkomandi laugardag kl. 16:00. Liðið náði ekki að koma sér í úrslitakeppnina að deildarkeppninni lokinni en hefur nú þegar tryggt sér áframhaldandi sæti í efstu deild að ári.

Með sigri á Snæfelli tryggði Valur sér deildarmeistaratitilinn. Þær fara suður með sjó og keppa gegn Keflavík á laugardaginn sem er enn í baráttu um heimaleikjarétt fyrir komandi úrslitakeppni. Leikurinn hefst kl. 16:00.

Líkar þetta

Fleiri fréttir