Mynd úr viðureign liðanna. Ljósm. úr safni.

Þristum rigndi í Fjósinu í Vesturlandsslagnum

Snæfellskonur sigruðu Vesturlandsslaginn nokkuð sannfærandi þegar þær sóttu Skallagrímskonur heim í gær í 19. umferð Domino’s deildar kvenna í körfuknattleik. Leikurinn var jafn framan af eða þar til um miðbik annars leikhluta en þá fóru gestirnir að bæta í og komust í stöðuna 40-29 þegar flautað var til hálfleiks.

Snæfell hélt uppteknum hætti í þriðja leikhluta og náði að auka muninn í 16 stig þegar heimakonur rönkuðu loks við sér. Náðu Borgnesingar að minnka muninn í fjögur stig en ekki komust þær nær og unnu Snæfellingar sannfærandi 20 stiga sigur á Skallagrímskonum, 87-67, og þar með Vesturlandsslaginn.

Stigahæstar í liði Snæfells voru Anna Soffía Lárusdóttir með 27 stig og Rebekka Rán Karlsdóttir með 25 stig en saman settu þær alls 13 þriggja stiga körfur niður. Haiden Denise Palmer var einnig drjúg fyrir sitt lið og skilaði inn þrefaldri tvennu; 22 stig, 10 fráköstum og 14 stoðsendingum.

Í liði Skallagríms var Sanja Orozovic atkvæðamest með 22 stig, 11 fráköst og 6 stoðsendingar. Keira Robinson kom næst á eftir með 15 stig og Embla Kristínardóttir þar næst með 14 stig.

Eftir 19 umferðir eru Snæfellsskonur svo gott sem búnar að tryggja liðið áfram í efstu deild, fjórum stigum meira en KR-ingar sem verma botnsætið. Snæfell er í 7. sæti með 8 stig og Skallagrímur er í 5. sæti með 16 stig.

Tveir leikir eru eftir í deildarkeppninni. Snæfell heimsækir Val á Hlíðarenda næstkomandi miðvikudag kl. 20:15. Sama dag fer Skallagrímur í Kópavoginn og keppir gegn Breiðabliki og hefst sá leikur kl. 19:15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir