Marinó Þór sækir hér á vörn Álftnesinga.

Sigur Skallagrímsmanna í Fjósinu

Skallagrímur vann góðan sigur á Álftanesi þegar liðin mættust í Fjósinu í Borgarnesi föstudaginn var í 16. umferð 1. deildar karla í körfuknattleik. Jafnt var með liðum í fyrsta fjórðungi. Það var ekki fyrr en í öðrum leikhluta sem Álftanes náði að slíta sig frá heimamönnum sem voru þó aldrei langt undan. Leiddu Álftnesingar með sjö stigum í hálfleik.

Gestirnir komu feikisterkir inn í þriðja leikhlutann og áttu heimamenn lítil sem engin svör við ákefð þeirra fyrrnefndu sem komust mest í 19 stiga forskot. Borgnesingar náðu hins vegar að rétta úr kútnum fyrir lokaleikhlutann. Hægt og rólega söxuðu þeir á forskotið og þegar um þrjár mínútur lifðu af leik komust þeir í fyrsta skipti yfir í langan tíma, 75-74. Heimamenn litu ekki um öxl eftir það og sigldu sigrinum í höfn. Lokatölur 86-77.

Stigahæstur i liði Skallagríms var Nebojsa Knezevic með 32 stig. Kristófer Gíslason var með 13 stig og Marinó Þór Pálmason með 10.

Í liði Álftaness var Róbert Sigurðsson með 17 stig og 8 stoðsendingar, Vilhjálmur Kári Jensson með 11 stig og Egill Agnar Októsson með 10.

Liðin eru jöfn stiga í deildinni með 18 stig. Skallagrímur á hins vegar leik til góða og spilar síðasta leikinn í deildarkeppninni gegn Breiðabliki í Kópavogi í kvöld kl. 19:15

Líkar þetta

Fleiri fréttir