Haiden Denise Palmer var atkvæðamest í liði Snæfells. Ljósm. úr safni

Snæfell sigraði KR í gær

Snæfell hafði betur gegn KR þegar liðin mættust í Hólminum í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik í gær, 77-61.

Leikurinn fór rólega af stað og liðin voru frekar jöfn að stigum framan af upphafsfjórðungnum. En síðustu tvær mínútur leikhlutans tóku heimakonur stökk og skoruðu tíu stig gegn tveimur og staðan 21-12 þegar leikhlutinn kláraðist. Lítið markvert gerðist í öðrum leikhluta, liðin fylgdust að og Snæfell hélt forystunni. Þegar flautað var til hálfleiks voru heimakonur með 44 stig gegn 34 stigum KR.

Eftir hléið var það sama uppi á teningnum, Snæfell hélt þessari góðu forystu út þriðja leikhluta og staðan 54-46 fyrir lokafjórðunginn. Þar náðu Vesturbæingar aðeins að saxa á forskot heimakvenna en það dugði ekki til og Snæfell sigraði örugglega með 77 stigum gegn 61.

Haiden Denise Palmer var atkvæðamest í liði Snæfells með 39 stig, níu fráköst og sjö stoðsendingar, Anna Soffía Lárusdóttir skoraði 16 stig og tók sex fráköst, Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoraði sjö stig, Emese Vida skoraði sex stig og tók 19 fráköst, Rebekka Rán Karlsdóttir skoraði einnig sex stig og Dunia Huwé skoraði þrjú stig.

Hjá KR var Annika Holopainen atkvæðamest með 16 stig, Perla Jóhannsdóttir skoraði 14 stig, Ástrós Lena Ægisdóttir skoraði tíu stig, Unnur Tara Jónsdóttir skoraði níu stig, Taryn Ashley Mc Cutcheon var með fimm stig, Ragnhildur Arna Kristinsdóttir með þrjú stig og Þóra Birna Ingvarsdóttir og Anna Fríða Ingvarsdóttir voru með tvö stig hvor.

Snæfell er í sjöunda sæti deildarinnar með sex stig, sex stigum á eftir Breiðabliki í sætinu fyrir ofan og tveimur stigum meira en KR í botnsætinu.

Næsti leikur Snæfells er Vesturlandsslagur þegar liðið mætir Skallagrími í Fjósinu í Borgarnesi á sunnudaginn, 2. maí, kl. 16:00.

Líkar þetta

Fleiri fréttir