Frá leik Skallagríms og Vals í febrúar. Ljósm. úr safni/Skallagrímur

Íslandsmeistararnir of stór biti fyrir Skallagrímskonur

Íslandsmeistarar Vals og Bikarmeistarar Skallagríms mættust á Hlíðarenda í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik í gærkvöldi. Þar urðu vonir bikarmeistaranna um sæti í úrslitakeppninni að engu en Valskonur sigruðu með 80 stigum gegn 63.

Bæði lið mættu sterk til leiks og skiptust á að leiða í upphafsfjórðungnum og var staðan 17-14 heimakonum í vil í lok fjórðungsins. Sama var uppi á teningnum í öðrum leikhluta, liðin voru frekar jöfn af stigum framan af. En leiðir fóru að skilja skömmu áður en hálfleiksflautan gall og staðan 39-32 fyrir Valskonur. Eftir hléið komu Valskonur öflugar til leiks en lítið virtist ganga upp hjá Borgnesingum. Í þriðja leikhluta gerðu heimakonur endanlega útum leikinn þegar þær skoruðu 27 stig gegn 14 og voru komnar með 20 stiga forskot fyrir lokafjórðunginn, 66-46. Meira jafnræði var með liðunum í lokafjórðungnum en Skallagrímskonur áttu aldrei möguleika á að ná til heimakvenna og lokatölur 80-63 Valskonum í vil.

Keira Robinson var atkvæðamest í liði Skallagríms með 17 stig og tíu fráköst, Embla Kristínardóttir var með 16 stig og níu fráköst, Gunnhildur Lind Hansdóttir var með níu stig og fimm fráköst, Maja Michalska var einnig með níu stig og sex fráköst, Nikita Telesford átti sex stig og átta fráköst, Ingibjörg Rósa Jónsdóttir skoraði fimm stig og Arna Hrönn Ámundadóttir skoraði eitt stig.

Í liði Vals var Hildur Björg Kjartansdóttir stigahæst með 14 stig og níu fráköst, Kiana Johnson skoraði 13 stig, Hallveig Jónsdóttir og Ásta Júlía Grímsdóttir voru með tíu stig hvor, Guðbjörg Sverrisdóttir skoraði átta stig, Dagbjört Dögg Karlsdóttir, Nína Jenný Kristjánsdóttir og Helena Sverrisdóttur skoruðu sjö stig hver og Eydís Eva Þórisdóttir skoraði fjögur stig.

Skallagrímur er nú í fimmta sæti deildarinnar með 16 stig, átta stigum fyrir neðan Fjölni í sætinu fyrir ofan og fjórum stigum meira en Breiðablik í sætinu fyrir neðan.

Næsti leikur Skallagríms er Vesturlandsslagur á sunnudaginn, 2. maí, þegar liðið fær Snæfell í heimsókn kl. 16:00.

Líkar þetta

Fleiri fréttir