Frá leik Snæfells og Hauka í síðustu viku. Ljósm. sá.

Tap hjá Snæfelli í Keflavík

Snæfellskonur máttu sætta sig við tap gegn Keflvíkingum þegar liðin mættust í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik á laugardaginn, 91-67. Leikið var í Keflavík.

Snæfellskonur komu sterkar til leiks og voru fljótlega komnar níu stigum yfir heimakonur, 3-12. Þá virtust Keflvíkingar taka við sér og minnkuðu muninn niður í eitt stig rétt fyrir lok upphafsfjórðungsins, 18-19. Í öðrum leikhluta sigldu Keflvíkingar fram úr Snæfelli sem náði ekki stigi síðustu fjórar mínútur fyrri hálfleiks. Staðan var því 45-28 þegar gengið var til klefa í hálfleik.

Snæfellskonur voru lengi í gang í upphafi síðari hálfleiks og tæpar tvær mínútur voru liðnar þegar þær náðu í fyrstu stigin. Lítið gekk upp hjá Hólmurum í þriðja leikhluta og Keflvíkingar héldu áfram að auka forskotið jafnt og þétt og staðan 66-43 fyrir lokafjórðunginn. Lítið markvert gerðist í lokaleikhlutanum og Keflvíkingar sigruðu örugglega með 24 stigum, 91-67.

Í liði Snæfells var Haiden Denise Palmer var atkvæðamest með 22 stig og tíu fráköst, Anna Soffía Lárusdóttir skoraði 18 stig og tók níu fráköst, Emesa Vida var með 14 stig og 13 fráköst, Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoraði átta stig og Rebekka Rán Karlsdóttir var með fimm stig. Í liði Keflavíkur var Daniela Wallen Morillo atkvæðamest með 36 stig, 15 fráköst og átta stoðsendingar.

Snæfell situr í sjöunda og næst neðsta sæti deildarinnar með fjögur stig, eins og KR í botnsætinu og sex stigum minna en Breiðablik í sætinu fyrir ofan. Næsti leikur Snæfells er við KR á miðvikudaginn, 28. apríl, kl. 19:15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir