Frá leik Skallagríms og KR fyrr í vetur. Ljósm. Skallagrímur.

Góður sigur Skallagrímskvenna í Vesturbænum

Skallagrímskonur unnu góðan útisigur á KR þegar liðin mættust í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik á laugardaginn, 80-88. Eftir jafnan fyrri hálfleik tóku Borgnesingar stjórnina í sínar hendur og sigruðu í leiknum.

KR konur voru með forystuna fyrstu mínútur leiksins en áttu svo tæplega þrjár stigalausar mínútur sem Borgnesingar nýttu vel og komust sjö stigum yfir eftir rúmlega sjö mínútna leik. Vesturbæingar gíruðu þá upp og náðu að minnka muninn í eitt stig, 16-17, rétt áður en fyrsti leikhluti kláraðist. Í öðrum leikhluta voru Borgnesingar áfram með forystuna en heimakonur fylgu þeim fast á eftir. Skallagrímskonur spiluðu vel og voru fimm stigum yfir þegar flautað var til hálfleiks, 34-39.

Heimakonur virtust ekki eiga nein ráð við leik Skallagríms eftir hléið og gestirnir spiluðu mjög vel og voru með 62 stig gegn 53 stigum Vesturbæinga fyrir lokafjórðunginn. Lítið markvert gerðist síðustu mínútur leiksins. Borgnesingar voru með leikinn í höndum sér og KR konur eltu. Lokatölur Í Vesturbænum voru 80-88 Skallagrímskonum í vil.

Keira Robinson var atkvæðamest í liði Skallagríms með 37 stig og átta fráköst, Sanja Orozovic var með 19 stig og sex fráköst, Embla Kristínardóttir skoraði 13 stig, tók sjö fráköst og gaf fimm stoðsendingar, Maja Michalska skoraði níu stig, Ingibjörg Rósa Jónsdóttir var með fimm stig, Arna Hrönn Ámundadóttir skoraði þrjú stig og Gunnhildur Lind Hansdóttir skoraði tvö stig og tók níu fráköst.

Í liði KR var Annika Holopainen atkvæðamest með 30 stig og sex fráköst, Taryn Ashley Mc Cutcheon skoraði 23 stig og gaf sex stoðsendingar, Eygló Kristín Óskarsdóttir skoraði átta stig og tók ellefu fráköst, Ástrós Lena Ægisdóttir átti sjö stig, Unnur Tara Jónsdóttir átti sex stig og ellefu fráköst, Ragnhildur Arna Kristínardóttir var með fjögur stig og Gunnhildur Bára Atladóttir skoraði tvö stig.

Skallagrímur situr nú í fimmta sæti deildarinnar með 16 stig, sex stigum minna en Fjölnir í sætinu fyrir ofan og sex stigum meira en Breiðablik í sætinu fyrir neðan.

Næst mætir Skallagrímur Valskonum á Hlíðarenda á miðvikudaginn, 28. apríl, kl. 20:15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir