Leikur flautaður af þegar fimmtán mínútur voru eftir

ÍA og KR áttust við í æfingaleik í knattspyrnu á sumardaginn fyrsta og lauk leiknum með sigri Vesturbæinga; 3-0. Mikill hiti var í leiknum og leikmönnum ansi heitt í hamsi og ákvað dómari leiksins, Þórður Már Gylfason, að flauta leikinn af á 75. mínútu. Samkvæmt fótbolta.net vildu leikmenn halda leik áfram en dómarinn var ekki á sama máli. Ísak Snær Þorvaldsson, leikmaður ÍA, var sakaður um að hafa „misst hausinn“ í leiknum og kýlt leikmann KR en vísaði því á bug í viðtali eftir leik: „Ég kýli aldrei leikmann KR, hann ætlaði að keyra inn í mig vegna þess að hann var eitthvað pirraður yfir einhverju sem gerðist áður í leiknum. Ég hoppa fyrir aftan hann og reyni að ýta honum frá mér, ef ég fór í andlitið á honum að þá var það ekki ætlunin. Ég ætlaði bara að skokka í stöðuna mína og halda áfram með leikinn en þá koma tveir KR-ingar hlaupandi að mér og byrja að ýta í mig. Eina sem ég geri er að svara fyrir mig, ég leyfi ekki neinum að valta yfir mig. Einn af þeim sem kom hlaupandi að mér baðst síðan afsökunar og við sættumst. Ég ber virðingu fyrir því,“ sagði Ísak að lokum.

Fyrsti leikur Skagamanna í Pepsí Max deildinni verður föstudaginn 30. apríl kl. 20 gegn Valsmönnum á útivelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir