Haukar of stór biti fyrir Snæfell

Snæfell tapaði fyrir Haukum þegar liðin mættust í Stykkishólmi í Domino‘s deild kvenna í körfubolta í gærkvöldi; 72-92.

Haukakonur byrjuðu leikinn betur og voru fljótlega komnar með sex stig gegn engu. Þær leiddu fyrstu mínúturnar en heimakonur gáfu þá í og náðu að jafna leikinn rétt undir lok fyrsta leikhluta. Gestirnir náðu þá í tvö stig til viðbótar og leiddu með 20 stigum gegn 18 í lok fyrsta leikhluta. Í öðrum leikhluta juku þær forystuna jafnt og þétt og fóru með níu stiga forystu til búningsklefa í hálfleik, 33-42.

Áfram leiddu gestirnir í síðari hálfleik en Snæfellingar fylgdu fast á eftir en gekk illa að minnka muninn. Þegar lokafjórðungurinn hófst voru Hafnfirðingar með þægilega 13 stiga forystu, 57-70. Haukakonur tryggðu sér svo öruggan 20 stiga sigur, 72-92.

Í liði Snæfells var Emese Vida atkvæðamest með 20 stig, 16 fráköst og fimm stoðsendingar Haiden Denise Palmer og Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoruðu 17 stig hvor auk þess sem Haiden gaf níu stoðsendingar og tók sjö fráköst, Anna Soffía Lárusdóttir skoraði tíu stig og tók fimm fráköst og Rebekka Rán Karlsdóttir skoraði skoraði átta stig.

Í liði Hauka var Bríet Sif Hinriksdóttir stigahæst með 20 stig og fimm fráköst, Alyesha Lovett skoraði 17 stig, tók níu fráköst og gaf fimm stoðsendingar, Þóra Kristín Jónsdóttir skoraði 14 stig og gaf átta stoðsendingar, Lovísa Björt Henningsdóttir skoraði tólf stig og Sara Rún Hinriksdóttir skoraði átta stig. Aðrar skorðu minna.

Snæfell situr í 7.-8. sæti deildarinnar með fjögur stig, eins og KR, sex stigum á eftir Breiðabliki í sætinu fyrir ofan.

Næsti leikur Snæfells er á útivelli gegn Keflavík á laugardaginn, 24. apríl, kl:16:00.

Líkar þetta

Fleiri fréttir