Matthías Leó og Hlynur Helgi kepptust um bikarinn í opnum flokki. Hlynur hafði á endanum betur.

Ungmenni af Skaganum gerðu það gott í keilunni

Um liðna helgi fór fram Íslandsmót ungmenna í keilu. Þar fékk ÍA þrjá Íslandsmeistaratitla en alls tóku níu ungmenni þátt frá Keilufélagi Akraness. Á þessum árstíma koma í ljós framfarir eftir æfingar vetrarins og sáust þær greinilega á þessu móti. Í fimmta flokki hlutu Friðmey Dóra Richter og Haukur Leó Ólafsson viðurkenningu, en í yngstu flokkkunum er ekki krýndur Íslandsmeistari. Í fjórða flokki stúlkna var Særós Erla Jóhönnudóttir Íslandsmeistari og má þess geta að Særós var aðeins 27 pinnum frá því að setja Íslandsmet í tveimur leikjum. Særós bætti einnig eigið met í einum leik þegar hún henti í 175, sem er hátt skor fyrir aðeins tíu ára barn. Nína Rut Magnúsdóttir varð Íslandsmeistari í þriðja flokki stúlkna og sló persónulegt met. Í þriðja flokki pilta varð Tómas Freyr Garðarsson í fjórða sæti af sjö keppendum og Matthías Leó Sigurðsson tók silfrið eftir hörku keppni. Í öðrum flokki stúlkna hafnaði Viktoría Hrund Þórisdóttir í fjórða sæti og í fyrsta flokki pilta varð Hlynur Helgi Atlason í þriðja sætir og Ísak Birkir Sævarsson í því fimmta. Ísak og Hlynur hafa í vetur verið á afreksbraut í Fjölbrautaskóla Vesturlands og mætt tvisvar í viku klukkan 8:00 að æfa með Guðmundi Sigurðssyni þjálfara.

Í opnum flokki etja þrír efstu kappi, óháð aldri. Þar börðust Matthías Leó og Hlynur Helgi um fyrsta sætið. Matthías varð að lúta í lægra haldi eftir úrslitaleikinn en bikarinn kom samt heim á Akranes. Framundan hjá unglingunum er lokaumferð í meistarakeppni ungmenna, sem er einstaklingskeppni í fimm umferðum.

Mæting á æfingar vetrarins hefur verið framúrskarandi, þó svo að umbætur í keilusal Akraness og Covid-19 hafi sett strik í reikninginn. Það verður því gaman að sjá hvernig leikar fara eftir Meistarakeppnina.

Líkar þetta

Fleiri fréttir