Frá leik Skallagríms og Sindra í síðasta mánuði. Ljósm. Sindri.

Skallagrímur sigraði Sindra á föstudaginn

Skallagrímur lagði Sindra, 82-73, þegar liðin mættust í 1. deild karla í körfuknattleik. Leikið var í Borgarnesi á föstudaginn. Bæði lið mættu sterk til leiks og skiptust á um að leiða fyrstu fimm mínútur. Þá náðu Borgnesingar að skríða fram úr gestunum en komust ekki lengra en fimm stigum frá þeim í fyrsta leikhluta, 22-17. Þeir héldu áfram að auka forystuna í öðrum leikhluta og tólf stig skildu liðin að þegar flautað var til hálfleiks, 45-33.

Sindramenn komu öflugir til leiks eftir hléið. Þeir minnkuðu muninn hratt fyrstu mínúturnar og komust einu stigi frá Borgnesingum en nær fóru þeir ekki. Borgnesingar leiddu með fimm stigum eftir þriðja leikhluta, 60-55. Gestirnir byrjuðu lokaleikhlutann á þriggja stiga körfu eftir aðeins átta sekúndur. Það dugði ekki til að ná Borgnesingum sem spiluðu vel síðustu mínúturnar. Þeir sigruðu að endingu með níu stigum, 82-73.

Atkvæðamestur í liði Skallagríms var Nebojsa Knezevic með 24 stig og sex fráköst. Eyjólfur Ásberg Halldórsson skoraði 16 stig, gaf átta stoðsendingar og tók sex fráköst, Davíð Guðmundsson var með tólf stig, Kristófer Gíslason var með ellefu stig og sjö fráköst, Marques Oliver skoraði sjö stig og tók tíu fráköst, Marinó Þór Pálmason skoraði fimm stig, Almar Orn Bjornsson átti fjögur stig og Benedikt Lárusson átti þrjú stig.

Hjá Sindra var Dallas O‘Brien Morgan stigahæstur með 25 stig og fimm fráköst. Gerald Robinson var með 14 stig og átta fráköst, Daris Genjac átti 13 stig og sjö fráköst, Gísli Þórarinn Hallsson skoraði tíu stig, Gerard Blat Baeza átti átta stig og fimm stoðsendingar, Aleix Pujadas Tarradellas skoraði tvö stig og Sigurður Guðni Hallsson skoraði eitt stig.

Skallagrímur er nú í fjórða sæti deildarinnar með 16 stig, eins og Sindri og Hamar í sætunum fyrir ofan og Álftanes í sætinu fyrir neðan. Næsti leikur liðsins verður á Ísafirði á föstudaginn, 26. mars, þegar liðið mætir Vestra.

Líkar þetta

Fleiri fréttir