Svipmynd úr safni af Snæfellsleik.

Ekki fengið stig í níu leikjum í röð

Snæfell tapaði sínum níunda leik í röð þegar liðið tapaði fyrir Haukum, 98-68, í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik á laugardaginn. Leikið var í Hafnarfirði.

Bæði lið mættu sterk til leiks og skiptust á um að leiða fyrstu mínúturnar. Þá komust heimakonur fimm stigum yfir um tíma en Snæfell svaraði og minnkaði muninn í eitt stig rétt áður en fyrsti leikhlutin kláraðist, 20-19. Allt var í járnum í öðrum leikhluta. Liðin skiptust á um að leiða þar til tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Þá náðu Haukakonur yfirhöndinni og leiddu með tíu stigum í hléinu, 49-39.

Hólmarar fundu ekki taktinn eftir hléið og Haukakonur héldu áfram að auka forystuna jafnt og þétt og voru þægilegum 24 stigum yfir þegar lokaleikhlutinn hófst. Snæfell náði að halda í við heimakonur í lokaleikhlutanum en aldrei að minnka muninn neitt að ráði. Haukar unnu örugglega með 98 stigum gegn 68 stigum Snæfellinga.

Haiden Denise Palmer var atkvæðamest í liði Snæfells með 20 stig, 15 fráköst og átta stoðsendingar. Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoraði 17 stig og tók ellefu fráköst, Anna Soffía Lárusdóttir skoraði ellefu stig, Rebekka Rán Karlsdóttir var með níu stig og fimm stoðsendingar, Vaka Þorsteinsdóttir skoraði sex stig, Ingigerður Sól Hjartardóttir skoraði þrjú stig og Dagný Inga Magnúsdóttir átti tvö stig.

Í liði Hauka var Þóra Kristín Jónsdóttir atkvæðamest með 25 stig, ellefu stoðsendingar og átta fráköst. Bríet Sif Hinriksdóttir skoraði 18 stig, Irena Sól Jónsdóttir og Alyesha Lovett voru með 13 stig hvor, Eva Margrét Kristjánsdóttir var með tíu stig, Magdalena Gísladóttir og Lovísa Björt Henningsdóttir voru með sex stig hvor, Elísabeth Ýr Ægisdóttir var með fjögur stig og Rósa Björk Pétursdóttir skoraði þrjú stig.

Snæfell situr nú í sjöunda og næstneðsta sæti deildarinnar með fjögur stig, sex stigum minna en Breiðablik í sætinu fyrir ofan en jafn mörg stig og KR í botnsætinu. Snæfell hefur ekki unnið leik síðan liðið mætti Breiðabliki í janúar. Næsti leikur Snæfells er á miðvikudaginn, 24. mars, þegar liðið mætir Haukum aftur en þá í Stykkishólmi kl. 19:15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir