Borgnesingar töpuðu í Keflavík

Skallagrímskonur töpuðu gegn Keflvíkingum á útivelli, þegar liðin mættust í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik á laugardaginn. Keflavík sigraði með 74 stigum gegn 51 stigi Skallagríms. Heimakonur voru komnar 5-0 yfir eftir aðeins eina mínútu en Borgnesingar virtust þá finna taktinn og náðu Keflvíkingum. Þær komust stigi yfir um miðjan fyrsta leikhluta en heimakonur komust aftur yfir og leiddu svo með 19 stigum gegn 16 í lok leikhlutans. Skallagrímskonur komust tveimur stigum yfir þegar fjórar mínútur voru búnar af öðrum leikhluta. Þá voru Keflvíkingar fljótir að svara og skoruðu 13 stig gegn engu á fjögurra mínútna kafla. Þegar gengið var til búningsklefa í hálfleik var staðan 38-33 heimakonum í vil.

Eftir hléið voru heimakonur sterkara liðið á vellinum og Borgensingar virtust ekki finna taktinn. Illa gekk hjá gestunum að koma boltanum í körfuna og komu langir stigalausir kaflar hjá þeim. Þegar lokaleikhlutinn hófst munaði níu stigum á liðunum, 55-46. Borgnesingar náðu lítið að skora síðustu mínútur leiksins og komu boltanum aðeins tvisvar í körfuna í síðast leikhlutanum og Keflavík sigraði örugglega 74-51.

Keira Robinson var atkvæðamest í liði Skallagríms með 21 stig og sjö fráköst. Sanja Orozovic var með tíu stig og fimm fráköst, Nikita Telesford skoraði sex stig og tók sex fráköst, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir átti fimm stig og sjö fráköst, Maja Michalska skoraði fjögur stig og tók fimm fráköst, Gunnhildur Lind Hansdóttir skoraði þrjú stig og Embla Kristínardóttir skoraði tvö stig og tók sex fráköst.

Í liði Keflavíkur var Daniela Wallen Morillo atkvæðamest með 34 stig og 19 fráköst, Emelía Ósk Gunnarsdóttir skoraði 15 stig, Katla Rún Garðarsdóttir átti tólf stig, Anna Lára Vignisdóttir skoraði sex stig, Agnes María Svansdóttir skoraði þrjú stig og Anna Ingunn Svansdóttir og Salbjörg Ragna Sævarsdóttir voru með tvö stig hvor.

Skallagrímur er enn í fimmta sæti deildarinnar með tólf stig, átta stigum á eftir Fjölni í sætinu fyrir ofan og tveimur stigum á undan Breiðabliki í sætinu fyrir neðan. Í næsta leik mætir Skallagrímur Keflvíkingum aftur en liðin leika í Borgarnesi á miðvikudaginn, 24. mars, kl 20:15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir