Kári tapaði fyrir Tindastóli

Knattspyrnufélagið Kári hélt í Skagafjörðinn í gær og atti kappi við Tindastól á Sauðárkróki í Lengjubikar karla. Káramenn byrjuðu leikinn vel og Andri Júlíusson kom þeim yfir strax á 17. mínútu. Enn vænkaðist hagur Kára þegar einum leikmanni Tindastóls var vikið að leikvelli um miðjan fyrri hálfleikinn. En skjótt skipast veður í lofti. Því síðustu þrjár mínútur fyrri hálfleiks reyndust Káramönnum afdrífaríkar. Því á 43. mínútu fékk Fylkir Jóhannsson leikmaður Kára sitt annað gula spjald og þar með rautt og því vikið af leikvelli. Tindastóll fékk vítaspyrnu og skoraði Konráð Freyr Sigurðsson fyrir heimamenn og jafnaði leikinn. Aðeins einni mínútu síðar skoraði Konráð aftur og kom Tindastólsmönnum yfir í leiknum og heimamenn skyndilega komnir með forystuna í hálfleik. En þess má geta að Konráð Freyr á rætur á Skagann, því hann er sonur Skagafólksins Sigurðar Halldórssonar (Sigga Donna) og Lovísu Jónsdóttur.

Heimamenn byrjuðu leikinn af krafti í síðari hálfleik og bættu þeir Jónas Aron Ólafsson og Hafþór Bjarki Guðmundsson tveimur mörkum við á fyrsta stundarfjórðungi síðari hálfleiks og staðan orðinn 4:1. Þar við sat og fleiri urðu mörkin ekki.

Næsti leikur Kára í Lengjubikarnum er gegn KF í Akraneshöllinni laugardaginn 27. mars.

Líkar þetta

Fleiri fréttir