Úr leik Snæfells og Fjölnis í Stykkishólmi í janúar. Ljósm. sá

Snæfell tapaði fyrir Fjölni

Snæfellskonur máttu játa sig sigraðar gegn Fjölni, 79-71, þegar liðin mættust í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik í gærkvöldi. Leikið var í Grafarvoginum.

Bæði lið mættu sterk til leiks og skiptust á að leiða í fyrsta fjórðungnum en Fjölniskonur voru þremur stigum yfir, 16-13, þegar leikhlutinn kláraðist. Fjölnir hélt forystunni í öðrum leikhluta en Hólmarar fylgdu þeim framan af. Þegar um fjórar mínúrur voru fram að hálfleik náðu heimakonur að skilja sig vel frá gestunum og voru með þægilega 17 stiga forystu þegar gengið var til hálfleiks, 45-28. Lítil breyting var í þriðja leikhluta, heimakonur héldu þessari góðu forystu. Í upphafi lokafjórðungsins jókst forskot heimakvenna og um tíma voru þær 21 stigi fyrir ofan gestina. Þá virtust Hólmarar fá aukinn kraft og náðu að minnka muninn jafnt og þétt, þær skoruðu 16 stig gegn engu á fimm mínútna kafla. Það dugði þó ekki til að ná sigri og lokaniðurstöður 79-71 Fjölni í vil.

Haiden Denise Palmer var atkvæðamest í liði Snæfells með 29 stig, 22 fráköst og sex stoðsendingar. Anna Soffía Lárusdóttir skoraði 19 stig og tók níu fráköst, Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoraði 14 stig og tók níu fráköst, Dunia Huwé var með sjö stig og Rebekka Rán Karlsdóttir skoraði tvö stig.

Í liði Fjölnis var Ariel Hearn atkvæðamest með 19 stig, 17 fráköst og átta stoðsendingar. Lina Pikciuté skoraði 18 stig og tók 14 fráköst, Sara Carina Vaz Djassi skoraði 14 stig, Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir var með 13 stig, Heiða Hlín Björnsdóttir skoraði fimm stig, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir skoraði fjögur stig og Fanney Ragnarsdóttir og Margret Osk Einarsdottir skoruðu þrjú stig hvor.

Snæfell situr enn í sjöunda og næst neðsta sæti deildarinnar með fjögur stig, jafn mörg og KR í botnsætinu og sex stigum minna en Breiðablik í sætinu fyrir ofan. Næsti leikur Snæfells verður í Hafnarfirði gegn Haukum á laugardaginn, 20. mars, kl. 15:00.

Líkar þetta

Fleiri fréttir