Svipmynd úr leiknum. Ljósm. karfan.is

Skallagrímskonur töpuðu naumlega í Hafnarfirði

Skallagrímur varð að sætta sig við tap gegn Haukum, 73-69, þegar liðin mættust á Ásvöllum í Hafnarfirði í Domino‘s deild kvenna í gærkvöldi. Haukakonur komu sterkari til leiks í upphafsfjórðungnum en Borgnesingar tóku fljótlega við sér og komust yfir í smá stund eftir nærri sjö mínútur en misstu svo heimakonur fram úr sér aftur og staðan 22-15 í lok fyrsta leikhluta. Mikið jafnræði var með liðunum frá miðjum öðrum leikhluta og allt í járnum þegar hálfleiksflautan gall, 34-34. Skallagrímskonur komu sterkar til leiks eftir hléið og náðu yfirhöndinni eftir aðeins tvær mínútur. Þær náðu átta stiga forystu um tíma en þegar þriðji leikhluti var úti voru Haukakonur komnar alveg upp við hlið þeirra með aðeins einu stigi minna, 53-54. Í lokafjórðungnum náðu Haukakonur fljótlega forystunni og Borgnesingar náðu ekki að jafna eftir það. Skallagrímur fór því heim eftir svekkjandi tap í annars góðum leik í Hafnarfirði, 73-69.

Keira Robinson var atkvæðamest í liði Skallagríms með 30 stig, tíu fráköst og átta stoðsendingar. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði tólf stig og tók ellefu fráköst, Maja Michalska skoraði tíu stig, Nikita Telesford var með átta stig og sex fráköst, Sanja Orozovic var með sex stig, átta fráköst og fimm stoðsendingar og Embla Kristínardóttir skoraði þrjú stig.

Hjá Haukum varAlyesha Lovett atkvæðamest með 22 stig, ellefu fráköst og sjö stoðsendingar. Bríet Sif Hinriksdóttir skoraði 13 stig, Sara Rún Hinriksdóttir skoraði tólf stig, Lovísa Björt Henningsdóttir var með tíu stig, Eva Margrét Kristjánsdóttir var með sex stig, Rósa Björk Pétursdóttir og Þóra Kristín Jónsdóttir voru með fjögur stig hvor og Elísabeth Ýr Ægisdóttir skoraði tvö stig.

Skallagrímur er í fimmta sæti deildarinnar með tólf stig, sex stigum á eftir Fjölni í sætinu fyrir ofan og tveimur stigum á undan Breiðabliki í sætinu fyrir neðan. Næsti leikur liðsins verður gefn Keflvíkingum suður með sjó næsta laugardag, 20. mars, kl 18:00.

Líkar þetta

Fleiri fréttir