Svipmynd úr leiknum. Ljósm. Karfan.is

Tap hjá Snæfelli eftir góðan fyrri hálfleik

Snæfell tapaði óvænt þegar liðið sótti Keflavík heim í Domino‘s deild kvenna í körfubolta í gær, 85-80. Snæfell hafði yfirhöndina í upphafsfjórðungnum og og leiddi með 17 stigum þegar annar leikhluti hófst. Snæfell hélt áfram að leiða í upphafi annars leikhluta en Keflvíkingar náðu að saxa á forskotið rétt fyrir hléið og aðeins fimm stig skildu liðin að þegar gengið var til búningsklefa í hálfleik, 47-52. Mikið jafnræði var með liðunum eftir hléið. Þau skiptust á að leiða og þegar lokafjórðungurinn hófst voru gestirnir aftur fimm stigum yfir, 66-71. Ekkert gerðist í nærri þrjár mínútur í upphafi fjórða leikhluta og staðan hélst óbreytt. Þá kom Anna Ingunn Svansdóttir með tveggja stiga körfu fyrir Keflvíkinga og strax á eftir fékk hún víti og náði þar í annað stig. Anna Ingunn var svo aftur á ferðinni skömmu síðar með þriggja stiga skot og kom Keflvíkingum yfir. Lítið gekk upp hjá Hólmurum og fyrstu stig liðsins í lokaleikhlutanum komu ekki fyrr en nærri átta mínútur voru liðnar. Þá kom Dunia Huwé með þrigga stiga körfu. Það dugði ekki til og þær náðu Keflvíkingum ekki og urðu því að snúa heim í Hólminn með tap eftir mjög góðann leik framan af.

Anna Soffía Lárusdóttir var stigahæst í liði Snæfells með 23 stig og tólf fráköst, Haiden Denise Palmer skoraði 19 stig, tók 15 fráköst og gaf 12 stoðsendingar, Dunia Huwé skoraði 17 stig, Tinna Guðrún Alexandersdóttir var með 15 stig og fimm fráköst og Rebekka Rán Karlsdóttir skoraði sex stig, tók ellefu fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Hjá Keflvíkingum var Daniela Wallen Morillo atkvæðamest með 28 stig, 22 fráköst og níu stoðsendingar. Anna Ingunn Svansdóttir skoraði 27 stig og tók níu fráköst.

Snæfell situr í 7. og næst neðsta sæti deildarinnar með aðeins fjögur stig, tveimur stigum meira en KR í botnsætinu og fjórum stigum minna en Breiðablik í sætinu fyrir ofan. Næsti leikur Snæfells er við Fjölni í Grafarvogi á miðvikudag, 17. mars, kl. 18:00.

Líkar þetta

Fleiri fréttir