Skagamenn úr leik í Lengjubikarnum

Skagamenn og Keflvíkingur léku á laugardaginn hreinan úrslitaleik hvort liðið myndi fylgja Stjörnunni áfram í 8-liða úrslit Lengjubikarsins úr þeirra riðli. Bæði lið voru fyrir leikinn jöfn að stigum með 7 stig hvort. Leikurinn fór fram í Reykjaneshöllinni og byrjuðu heimamenn mun betur í leiknum, en Skagamenn unnu sig inn í leikinn og áttu ágæta spretti í síðari hluta hálfleiksins, en markalaust var í hálfleik. Heimamenn í Keflavík byrjuðu síðari hálfleikinn eins og þann fyrri af miklum krafti og uppskáru tvö mörk nánast á sömu mínútunni. Á 53. mínútu náði Rúnar Þór Sigurgeirsson forystunni fyrir heimamenn. Skagamenn tóku miðju og töpuðu boltanum strax og Keflvíkingar brunuðu í sókn og Davíð Snær Jóhannsson skoraði annað mark þeirra í leiknum. Eftir þetta var allur vindur úr Skagamönnum og Keflvíkingar gengu á lagið og skoruðu þriðja markið á 76. mínútu. Aðeins tveimur mínútum síðar minnkuðu Skagamenn muninn með marki Ísaks Snæs Þorvaldssonar eftir undirbúning Gísla Laxdals Unnarssonar. Ástbjörn Þórðarson skoraði svo fjórða mark heimamanna fjórum mínútum fyrir leikslok með skalla óáreittur inni í vítateig og tryggði stórsigur Suðurnesjamanna.

Sigur Keflvíkinga var sanngjarn. Þeir voru einfaldlega mun sterkari í leiknum og ákveðnari í öllum sínum aðgerðum en að sama skapi áttu flestir leikmenn Skagamanna afskaplega dapran dag að þessu sinni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir