Ljósm. úr safni/ Skallagrímur.

Borgnesingar sigruðu eftir hörkuleik á Selfossi

Skallagrímur hafði betur gegn Selfossi, 68-73, í hörkuspennandi leik í 1. deild karla í körfubolta á Selfossi á föstudaginn. Skallagrímsmenn áttu fyrstu stig leiksins en á fimmtu mínútu tóku Selfyssingar forystuna, héldu henni út upphafsfjórðunginn og leiddu með átt stigum, 22-14, þegar annar leikhluti hófst.

Selfyssingar héldu áfram að leiða í leiknum fyrstu mínútur annars leikhluta en Borgnesingar skriðu svo yfir heimamenn um miðjan leikhluta. Allt var í járnum síðustu mínútur fyrri hálfleiks og heimamenn einu stigi yfir í hléinu, 38-37. Selfyssingar mættu ákveðnir til síðari hálfleiks og voru fljótlega komnir ellefu stigum yfir. Borgnesingar söxuðu hratt á forskotið og voru komnir stigi yfir þegar rétt rúm mínútu var eftir af þriðja leikhluta. Selfyssingar svöruðu fyrir og voru tveimur stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 55-53. Allt var í járnum í lokaleikhlutanum. Liðin skiptust á að leiða og þegar tvær og hálf mínúta var eftir af leiktímanum voru liðin jöfn. Kennedy Clement Aigbogun klikkaði á tveggja stiga skoti fyrir Selfyssinga og Marques Oliver náði frákastinu. Kristján Örn Ómarsson átti þá góða þriggja stiga körfu. Ekkert gekk upp hjá Selfyssingum þessar síðustu mínútur og boltinn bara vildi ekki ofan í körfuna og lokatölur 68-73 fyrir Borgnesinga.

Í liði Skallagríms var Marques Oliver atkvæðamestur með 26 stig og 21 frákast. Kristján Örn Ómarsson skoraði 13 stig, Nebojsa Knezevic skoraði níu stig, Marinó Þór Pálmason og Eyjólfur Ásberg Halldórsson voru með sex stig hvor, Benedikt Lárusson og Almar Orn Bjornsson voru með fimm stig hvor og Davíð Guðmundsson skoraði þrjú stig.

Í liði Selfyssinga var Kristijan Vladovic stigahæstur með 16 stig, sjö fráköst og níu stoðsendingar.

Skallagrímur situr nú í fimmta sæti deildarinnar með 14 stig, jafnmörg og Álftanes í sætinu fyrir ofan og fjórum stigum fyrir ofan Vestra í sætinu fyrir neðan. Næst leikur Skallagrímur við Sindra í Borgarnesi á föstudaginn, 19. mars, kl. 19:15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.