Keira Robinson keyrir á móti Fanneyju Ragnarsdóttur. Ljósm. Fjölnir

Skallagrímskonur töpuðu á lokasprettinum

Skallagrímskonur biðu lægri hlut gegn Fjölni, 98-90, þegar liðin mættust í Grafarvoginum í Domino‘s deild kvenna í körfubolta í gærkvöldi. Bæði lið mættu sterk til leiks og Skallagrímskonur náðu í fyrstu stig leiksins eftir hálfa mínútu þegar Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði þriggja stiga körfu. Borgnesingar áttu góðan upphafsleikhluta og voru komnar með tólf stig gegn fimm þegar tæpar fimm mínútur voru búnar af leiknum. Heimakonur voru þó aldrei langt á eftir og staðan 20-21 fyrir Borgnesingum þegar fyrsti leikhluti kláraðist. Strax á fyrstu sekúndum annars leikhluta kom tveggja stiga karfa hjá Skallagrími og eftir tæpar tvær mínútur af leikhlutanum voru þær búnar að skora níu stig gegn engu. Borgnesingar spiluðu vel en Fjölnir fylgdi fast á hæla gestanna og aðeins fjögur stig skildu liðin að í hálfleik, 47-51. Fjölniskonur komu öflugar til leiks eftir hléið og komust yfir eftir aðeins mínútu af síðari hálfleik. Mikil barátta var í báðum liðum sem skiptust á að vera yfir og þegar lokaleikhlutinn hófst voru heimakonur einu stigi yfir, 67-66. Borgnesingar svöruðu strax en það dugði ekki til og síðustu níu mínútur leiksins héldu Fjölniskonur yfirhöndinni og Skallagrímskonur fylgdu fast á eftir en náðu þeim aldrei og lokatölur 98-90 eftir hörkuleik.

Keira Robinson var atkvæðamest í liði Skallagríms með 39 stig, tíu fráköst og fimm stoðsendingar. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði 25 stig, Sanja Orozovic skoraði 13 stig og gaf átta stoðsendingar, Nikita Telesford skoraði átta stig og tók sex fráköst, Embla Kristínardóttir var með þrjú stig og Maja Michalska skoraði tvö stig.

Í liði Breiðabliks var Ariel Hearn atkvæðamest með 46 stig, 13 fráköst og átta stoðsendingar. Sara Carina Vas Djassi skoraði 19 stig og gaf fimm stoðsendingar, Lina Pikciuté skoraði 16 stig, tók tólf fráköst og gaf fimm stoðsendingar, Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir skoraði tíu stig, Fanney Ragnarsdóttir skoraði fimm stig og Heiða Hlín Björnsdóttir var með tvö stig.

Skallagrímur er nú í fimmta sæti deildarinnar með tólf stig, fjórum stigum á eftir Fjölni í sætinu fyrir ofan og fjórum stigum fyrir ofan Breiðablik í sætinu fyrir neðan. Næsti leikur Skallagríms verður í Hafnarfirði þegar liðið mætir Haukum næsta miðvikudag, 17. mars, kl. 19:15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir