Svipmynd úr leiknum. Ljósm. karfan.is

Breiðablik hafði betur gegn Snæfelli

Snæfell sótti Breiðablik heim í Smárann í 12. umferð Domino‘s deildar kvenna í körfubolta í gærkvöldi. Heimakonur náðu yfirhöndinni strax í fyrsta leikhluta en Hólmarar hleyptu þeim aldrei langt framúr sér og þegar gengið var til búningsklefa í hálfleik voru aðeins sex stig sem skildu liðin að, 52-64. Lítið breyttist eftir hléið, Blikar leiddu en Snæfell fylgdi nokkrum stigum á eftir. Það var svo á fjögurra mínútna kafla í lokaleikhlutanum sem heimakonur skoruðu 16 stig gegn engu og komu sér þá í þægilega forystu og lokatölur 99-76 fyrir Blikum.

Í liðin Snæfells var Haiden Denise Palmer stigahæst með 23 stig, tíu fráköst og sjö stoðsendingar. Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoraði 18 stig og tók fimm fráköst, Anna Soffía Lárusdóttir skoraði 17 stig og tók ellefu fráköst, Dunia Huwé skoraði tólf stig og tók sex fráköst, Rebekka Rán Karlsdóttir var með þrjú stig og fimm fráköst og Ingigerður Sól Hjartardóttir skoraði þrjú stig.

Jessica Kay Loera var stigahæst í liði Breiðabliks með 22 stig, fimm fráköst og sex stoðsendingar. Ísabella Ósk Sigurðardóttir skoraði 21 stig og tók 28 fráköst, Iva Georgieva skoraði 16 stig, Brigit Ósk Snorradóttir skoraði 13 stig og tók sjö fráköst, Sóllilja Bjarnadóttir skoraði átta stigo, tók sjö fráköst og gaf sjö stoðsendingar, Telma Lind Ásgeirsdóttir var með sex stig, Þórdís Jóna Kristjánsdóttir var með fimm stig og Eyrún Ósk Alfreðsdóttir skoraði tvö stig.

Snæfell er nú í sjöunda og næst neðsta sæti deildarinnar með fjögur stig, fjórum stigum á eftir Breiðabliki í sætinu fyrir ofan og tveimur stigum fyrir ofan KR í botnsætinu. Næsti leikur Snæfells er suður með sjó við Keflvíkinga á sunnudaginn, 14. mars, kl. 16:00.

Líkar þetta

Fleiri fréttir