Aðalheiður Ella Ásmundsdóttir er 14 ára Skallagrímskona sem spilaði sínar fyrstu mínútur með meistaraflokki í leiknum gegn Breiðabliki og átti hún tvö stig í leiknum. Ljósm. Skallagrímur

Öruggur sigur Skallagrímskvenna í Fjósinu

Skallagrímskonur unnu örugglega; 80-48, þegar þær fengu Breiðablik í heimsókn í Domino‘s deild kvenna í gær. Skallagrímskonur komu sterkar til leiks og voru komnar sjö stigum yfir fyrir lok í fyrsta leikhluta, 17-10. Lítið gekk upp hjá gestunum og heimakonur héldu áfram að skilja sig frá þeim. Þegar sex mínútur voru liðnar af öðrum leikhluta höfðu heimakonur náð góðri 18 stiga forystu sem gestirnir náðu að minnka í 15 stig rétt áður en gengið var til klefa í hálfleik, 34-19. Lítið markvert gerðist í síðari hálfleik, Skallagrímur stjórnaði öllu á vellinum og sigruðu með 32 stigum, 80-48.

Í liði Skallagríms var Keira Robinson atkvæðamest með 31 stig og átta fráköst, Sanja Orozovic skoraði 14 stig, tók 15 fráköst og gaf sex stoðsendingar, Embla Kristínardóttir skoraði átta stig og tók sex fráköst, Gunnhildur Lind Hansdóttir og Maja Michalska skoruðu sjö stig hvor, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði sex stig og tók tíu fráköst, Ingibjörg Rósa Jónsdóttir skoraði fjögur stig, Aðalheiður Ella Ásmundsdóttir skoraði tvö stig og Arna Hrönn Ámundadóttir var með eitt stig.

Jessica Kay Loerna var stigahæst í liði Breiðabliks með 13 stig og sex stoðsendingar, Ísabella Ósk Sigurðardóttir skoraði tólf stig og tók 14 fráköst, Iva Georgieva skoraði ellefu stig og tók sjö fráköst, Telma Lind Ásgeirsdóttir var með fimm stig, Sóllilja Bjarnadóttir, Birgit Ósk Snorradóttir og Eyrún Ósk Alfreðsdóttir voru með tvö stig hver og Þórdís Jóna Kristjánsdóttir skoraði eitt stig.

Skallagrímur er nú í fimmta sæti deildarinnar með tólf stig, tveimur stigum á eftir Fjölni í sætinu fyrir ofan en það eru næstu andstæðingar Skallagríms þegar liðin mætast í Grafarvogi næsta miðvikudag, 10. mars.

Líkar þetta

Fleiri fréttir