Keira Robinson í baráttunni við Keflvíkinga. Ljósm. Skallagrímur.

Svekkjandi tap hjá Skallagrímskonum

Skallagrímur varð að sætta sig við naumt tap í spennuleik gegn Keflvíkingum í Domino‘s deild kvenna í körfubolta í gær; 67-71. Liðin mættust í Borgarnesi og bæði mættu sterk til leiks. Eftir jafnan fyrsta leikhluta voru heimakonur fjórum stigum yfir, 19-15. Skallagrímskonur héldu áfram á sömu braut í öðrum leikhluta og leikurinn var í þeirra höndum fram að hálfleik en þá voru þær átta stigum yfir, 33-25. Lítið markvert gerðist í þriðja leikhluta, Skallagrímskonur leiddu og Keflvíkingar eltu og enn átta stiga munur þegar þriðja leikhluta lauk 52-44. Keflvíkingar komust svo yfir þegar þrjár og hálf mínúta var eftir af leiktímanum, þegar Daniela Wallen Morillo hitti úr þriggja stiga stökkskoti og kom gestunum stigi yfir, 58-59. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir var fljót að svara og skoraði úr tveimur vítum. Allt var í járnum þessar síðustu mínútur og þegar aðeins 20 sekúndur voru eftir af leiknum var staðan jöfn, 67-67. Þá skoraði Emelía Ósk Gunnarsdóttir úr þriggja stiga stökkskoti og kom gestunum yfir. Skallagrímskonur náðu ekki að laga stöðuna eftir það og lokatölur 67-71 fyrir Keflvíkingum.

Keira Robinson var atkvæðamest í liði Skallagríms með 21 stig, Sanja Orozovic skoraði 17 stig og tók ellefu fráköst, Maja Michalska skoraði 13 stig og tók sex fráköst, Embla Kristínardóttir skoraði átta stig og tók sjö fráköst og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði átta stig og gaf fimm stoðsendingar.

Í liði Keflvíkinga var Daniela Wallen Morillo atkvæðamest með 24 stig og 21 frákast, Anna Ingunn Svansdóttir skoraði 16 stig, Emelía Ósk Gunnarsdóttir skoraði ellefu stig, Katla Rún Garðarsdóttir skoraði átta stig, Erna Hákonardóttir skoraði fjögur stig, Agnes María Svansdóttir og Salbjörg Ragna Sævarsdóttir voru með þrjú stig hvor og Anna Lára Vignisdóttir skoraði tvö stig.

Skallagrímur er nú í fimmta sæti deildarinnar með tíu stig. Næsti leikur liðsins er gegn Breiðabliki á miðvikudaginn, 3. mars, í Borgarnesi kl. 18:15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir