Mikil spenna í hnífjöfnum Vesturlandsslag

Snæfell tók á móti Skallagrími í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik í gærkvöldi. Því miður var ekki hægt að selja nema 36 miða á leikinn eins og til stóð, en ástæðan var sú að reglugerð í kjölfar rýmkaðra samkomutakmarkana á íþróttaleiki var ekki tilbúin.

Viðureignir þessara nágranna á Vesturlandi eru ávalt þrungnar mikilli spennu og ekki var nein undantekning þar á í gær. Eftir mikla baráttu á vellinum allt frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu sigruðu Borgnesingar með einu stigi, 65-66. Liðin mættu til leiks af miklum krafti og ljóst að bæði lið ætluðu sér sigur. Allt var í járnum í fyrsta leikhluta sem endaði hnífjafn 17-17. Lítil breyting var þar á í öðrum leikhluta og varnarleikur beggja liða mjög sterkur. Skallagrímskonur voru stigi yfir þegar gengið var til klefa í hálfleiks, 31-32. Eftir hléið virtust Borgnesingar ætla að taka þennan leik og í þriðja leikhluta héldu þær forystunni og komust sjö stigum yfir um tíma. Snæfell minnkaði muninn í fimm stig rétt fyrir lokaleikhlutann, 45-50. Heimakonur voru ekki búnar og söxuðu jafnt og þétt á forskot nágranna sinna í fjórða leikhluta. Þegar þrjár mínútur voru eftir af leiktímanum var allt jafnt, 61-61, og Emese Vida komin á vítalínuna og gat komið Snæfelli yfir. Boltinn fór þó ekki í gegnum netið og skömmu síðar var Sanja Orozovic komin á vítalínuna fyrir Borgnesinga og náði þar í eitt stig og kom Skallagrími yfir. Emese Vida fékk þá annað tækifæri á vítalínunni og jafnaði leikinn þegar tæplega tvær og hálf mínúta var eftir af leiknum, 62-62. Þessar síðustu mínútur voru spennuþrungnar og allt stál í stál. Í stöðunni 65-66 fengu Snæfellskonur síðustu sókn leiksins og tækifæri til að jafna en þegar tólf sekúndur voru eftir hitti Haiden Denise Palmer ekki úr tveggja stiga stökkskoti en Emese Vida náði frákastinu. Hún kom þó boltanum ekki í gegnum netið og Skallagrímskonur náðu frákastinu og komust upp völlinn á meðan tíminn leið. Sigur þeirra var í höfn með minnsta mögulega mun. Svekkjandi tap fyrir Hólmara en góður sigur fyrir Borgnesinga eftir hörkuspennandi leik.

Í liði Skallagríms var Keira Robinson atkvæðamest með 24 stig og 14 fráköst, Sanja Orozovic skoraði 15 stig og tók ellefu fráköst, Nikita Telesford skoraði tíu stig og tók 14 fráköst, Maja Michalska átti sjö stig, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir var með fimm stig, Arna Hrönn Ámundadóttir skoraði þrjú stig og Embla Kristínardóttir skoraði tvö stig.

Atkvæðamest í liði Snæfellinga var Haiden Denise Palmer með 22 stig, 15 fráköst og sex stoðsendingar, Emese Vida skoraði 13 stig og tók 21 frákast, Tinna Guðrún Alexandersdóttir og Anna Soffía Lárusdóttir voru með tólf stig hvor og Rebekke Rán Karlsdóttir skoraði sex stig.

Skallagrímur situr nú í fimmta sæti deildarinnar með tíu stig og leikur næst við Keflavík í Borgarnesi á sunnudaginn, 28. febrúar, kl. 16:00. Snæfell er í næst neðsta sæti deildarinnar með fjögur stig og leikur næst við Val í Stykkishólmi á miðvikudaginn í næstu viku, 3. mars, kl. 19:15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir