Búið að opna golfæfingaaðstöðu á Hellissandi

Golfklúbburinn Jökull stóð nýverið fyrir opnu húsi. Tilefnið var að kynna og opna formlega innanhússaðstöðu klúbbsins á Hellissandi. Að sögn Jóns Bjarka Jónatanssonar formanns klúbbsins var áætlað að opna í október á síðasta ári en því varð að fresta sökum sóttvarnaráðstafanna. Nú þegar búið er að slaka aðeins á var hægt að gera þetta.

Í nýja húsnæðinu er púttaðstaða og golfhermir og verður aðstaðan öllum opin og ekki neinn sérstakur opnunartími. Verður fyrirkomulagið þannig að félagar í golfklúbbnum geta skráð sig á skjal til að komast í golfherminn og fá þá sérstaka kóða til að opna lyklabox sem veitir þeim aðgang að húsnæðinu. Einnig verður hægt fyrir aðra að nýta aðstöðuna og þurfa þeir að hafa samband við gjaldkera golfklúbbsins.

Vel var mætt á opna húsið en á milli 20 og 30 gestir komu til að skoða. Voru allir sammála um að aðstaðan væri öll hin glæsilegasta en hún mun bæta til muna aðstöðu golfara til að stunda íþrótt sína á veturna. Aðstaða mun svo enn batna þegar nýr golfvöllur verður tekin í notkun en vinna við hann hófst síðasta sumar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir